Fótbolti

Farbannið yfir Gylfa Þór fram­lengt til 17. apríl

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Gylfi var handtekinn á heimili sínu í Manchester um miðjan júlí.
Gylfi var handtekinn á heimili sínu í Manchester um miðjan júlí. Vísir/Daniel Thor

Farbann yfir Gylfa Þór Sigurðssyni knattspyrnumanni hefur verið framlengt til 17. apríl næstkomandi. Gylfi Þór er til rannsóknar hjá lögreglu í Manchester vegna gruns um að hann hafi brotið kynferðislega á ungmenni. Þetta staðfestir lögreglan í Manchester í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu. 

Gylfi Þór var handtekinn á heimili sínu í Manchester 16. júlí síðastliðinn. Hann var tekinn til skýrslutöku við handtökuna og húsleit gerð á heimili hans en honum var síðan sleppt lausum gegn tryggingu og settur í farbann. Það fyrirkomulag hefur verið í gildi síðan í júlí og rann út nú í gær.

Fyrirkomulagið átti að renna út á sunnudag, 16. janúar, en var framlengt þar til í gær. Nú hefur það verið framlengt um þrjá mánuði til viðbotar. 

Gylfi hefur ekkert tjáð sig um málið frá því að það kom upp í sumar. Heimildir götumiðla í Bretlandi herma þó að Gylfi hafi harðneitað þeim ásökunum sem á hann hafa verið bornar.

Gylfi hefur undanfarin misseri spilað með enska knattspyrnuliðinu Everton í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta. Gylfi var ekki á lista liðsins yfir það leikmenn sem liðið hefur mátt tefla fram í leikjum frá 1. september og má því ekki spila fyrir liðið. Everton hefur gefið það út að hann muni ekki spila með liðinu fyrr en rannsókn lögreglu er lokið. 

Samningur Everton og Gylfa rennur út í sumar en hann var keyptur til félagsins frá Swansea fyrir 45 milljónir punda árið 2017. Þá hefur Gylfi ekki leikið með landsliði Íslands síðan í nóvember 2020.


Tengdar fréttir

Rannsókn á máli Gylfa loks að ljúka

Gylfi Þór Sigurðs­son, leik­maður E­ver­ton og ís­lenska lands­liðsins í knatt­spyrnu, verður á­fram laus gegn tryggingu fram í miðja næstu viku. Þá ætti að skýrast hvort lög­regla ætli að leggja fram kæru á hendur Gylfa en hann grunaður um kynferðisbrot gegn ólögráða stúlku.

Á­fram laus gegn tryggingu

Gylfi Þór Sigurðs­son, leik­maður enska knatt­spyrnu­liðsins E­ver­ton, verður á­fram laus gegn tryggingu fram til mið­viku­dagsins í næstu viku, 19. janúar.

Gylfi ekki með í Foot­ball Mana­ger

Knattspyrnumanninn Gylfa Þór Sigurðsson er hvergi að finna í frumútgáfunni af næsta Football Manager. Frá þessu segir í frétt á vef mbl.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×