Erlent

„Enginn sagði mér að þetta væri brot á reglunum“

Samúel Karl Ólason skrifar
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur átt undir högg að sækja undanfarna daga.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur átt undir högg að sækja undanfarna daga. EPA/Jessica Taylor

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, segir það rangt að hann hafi verið varaður við því að samkvæmi á Downingstræti væri brot á samkomutakmörkunum og sóttvarnarreglum. Ráðherrann hefur verið sakaður um að ljúga að þinginu um hvað hann vissi um samkvæmið sem haldið var í maí 2020.

Þá voru harðar samkomutakmarkanir í gildi í Bretlandi en haldin var veisla við heimili Borisar til að fagna vinnu ríkisstjórnarinnar í baráttunni við kórónuveiruna. Var fólk hvatt til að mæta með eigið áfengi.

Í síðustu viku baðst forsætisráðherrann afsökunar á þingi og sagðist hann hafa talið að um vinnuviðburð væri að ræða.

Sjá einnig: Boris á hálum ís

Dominic Cummings, fyrrverandi ráðgjafi Borisar, steig þó fram og sagði forsætisráðherrann hafa logið að þinginu. Hann sagðist persónulega hafa bent á að samkvæmið færi gegn reglunum og háttsettur embættismaður hefði sagst ætla að bera það undir Boris, samkvæmt frétt Guardian.

Skömmu seinna hefði Boris sagt við starfsfólk að áðurnefndur embættismaður hefði boðið fólki í samkvæmi og fagnað því. Cummings sagði forsætisráðherrann hafa leitt hjá sér að samkvæmið væri gegn reglunum.

Boris sagði svo í viðtali við Sky News í dag að enginn hefði sagt honum að samkvæmið væri brot á reglunum. Hann ítrekaði afsökunarbeiðni sína og sagði að aldrei hefði átt að halda samkvæmið.

Þá sagði hann að enginn hefði sagt sér að samkvæmið væri brot á reglunum. Ef það hefði verið gert hefði samkvæmið aldrei verið haldið.

„Ég man þetta svo að ég fór út í garð í um 25 mínútur, sem ég hélt að væri vinnuatburður, og að tala við starfsfólkið, þakka starfsfólkinu. Síðan fó ég aftur inn á skrifstofu og hélt áfram að vinna,“ sagði Boris.

Hann sagði einnig að eftir á að hyggja hefði hann strax átt að sjá að þetta væri brot á reglum og segja fólki að fara aftur inn.

Samkvæmið er til rannsóknar og er forsætisráðherrann var spurður hvort hann myndi segja af sér ef í ljós kæmi að hann hefði sagt þingmönnum ósatt sagði hann: „Sjáum hvað fram kemur í skýrslunni“.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×