Erlent

Franskur for­seta­fram­bjóðandi sektaður vegna hatur­s­orð­ræðu

Atli Ísleifsson skrifar
Forsetaframbjóðandinn Eric Zemmour er umdeildur í heimalandinu.
Forsetaframbjóðandinn Eric Zemmour er umdeildur í heimalandinu. EPA

Franski fjölmiðlamaðurinn Eric Zemmour, sem tilkynnt hefur um framboð sitt til forseta Frakklands í kosningunum í apríl, hefur verið sektaður vegna hatursorðræðu sem hann viðhafði um unga flóttamenn árið 2020. Sakaði hann þá almennt um að vera „þjófa, morðingja og nauðgara“.

Dómstóll í París kvað upp úrskurð sinn í gær, en hægriöfgamaðurinn Zemmour var sektaður um 10 þúsund evrur, um 1,5 milljón króna. Zemmour hefur í tvígang áður veirð dæmdur fyrir hatursorðræðu, meðal annars fyrir orð sín um að „flestir fíkniefnasalar séu svartir eða arabar“.

Zemmour vonast til að hafa betur gegn Emmanuel Macron Frakklandsforseta í forsetakosningunum sem fram fara 10. og 24. apríl næstkomandi.

Forstaframbjóðandinn lét orðin falla á sjónvarpsstöðinni CNews þar sem hann sagði unga flóttamenn, sem væru ekki í fylgd annarra, „hefðu enga ástæðu til að vera hérna: þeir eru þjófar, þeir eru morðingjar, þeir eru nauðgarar, þetta er það sem þeir gera og það ætti að senda þá til baka.“ Bætti hann svo við að þeir kostuðu franska skattgreiðendur háar fjárhæðir.

Verið að reyna að þagga niður í sér

Zemmour var ekki viðstaddur þegar dómari kvað upp sinn úrskurð en í yfirlýsingu fordæmdi hann það sem hann kallaði tilraun saksóknara og ákveðinna hópa til að þagga niður í sér.

Sumar skoðanakannanir hafa bent til að Zemmour njóti nægilegs stuðnings til að komast í síðari umferð forsetakosninganna, þar sem þá yrði þá líklegast kosið milli hans og Emmanuel Macron Frakklandsforseta. Þykir líklegt að hann muni í fyrri umferðinni kljást við Marine Le Pen og Þjóðfylkingu hennar um atkvæði þeirra sem vilja stöðva straum innflytjenda til Frakklands og sér í lagi múslíma.

Hefur stýrt spjallþætti

Fyrri umferð frönsku forsetakosninganna fara fram þann 10. apríl næstkomandi. Hljóti enginn frambjóðandi hreinan meirihluta í fyrri umferð kosninganna, eins og líklegt verður að teljast, verður kosið milli þeirra tveggja sem hluti flest atkvæði tveimur vikum síðar, eða þann 24. apríl.

Zemmour hefur áður starfað sem blaðamaður hjá blaðinu Le Figaro. Þaðan fór hann svo til CNews þar sem hann stýrði spjallþætti, en þátturinn Face à L'Info hefur þar verið á dagskrá flest kvöld og er með um milljón áhorfenda.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×