Erlent

Gíslataka í bænahúsi gyðinga í Dallas

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Lögregla hefur girt svæðið við bænahúsið af vegna stöðunnar.
Lögregla hefur girt svæðið við bænahúsið af vegna stöðunnar. AP/Jessika Harkay

Vopnaður maður hefur tekið fólk gíslingu í bænahúsi gyðinga í Texas í Bandaríkjunum. Maðurinn segist vera vopnaður sprengjum og hafa tekið rabbína bænahússins og þrjár aðra gíslingu.

Bænahúsið er í bænum Colleyville í Texas, um 20 km norðaustur af Fort Worth, og heitir Congregation Beth Israel. Óljóst er hvort maðurinn sé vopnaður meiru en sprengjunum, sem hann segist hafa á sér, en það er einnig óstaðfest. 

Heimildamaður fréttastofu ABC segir í samtali við hana að maðurinn segist vera bróðir dæmda hryðjuverkamannsins Aafia Siddiqui en yfirvöld hafa enn ekki staðfest það. Þá hafi hann gert kröfu um að systur hans verði sleppt úr fangelsi. 

Maðurinn sem hefur tekið minnst fjóra í gíslingu segist bróðir dæmds hryðjuverkamanns.Getty/Amanda McCoy

Siddiqui afplánar nú fangelsisdóm á Carswell flugherstöðinni nærri Fort Worth samkvæmt frétt ABC. Hún var dæmd fyrir líkamsárás og morðtilraun á bandarískum hermanni árið 2010 og var dæmd í 86 ára fangelsi. 

Siddiqui var um tíma nemandi í MIT-háskólanum í Bandaríkjunum og á þrjú börn. Hún er sögð hafa verið gift frænda Khalids Sheikh Mohammeds, sem sagður er hafa skipulagt árásirnar í Bandaríkjunum 11. september 2001, og þannig haft tengsl við hryðjuverkasamtökin al-Qaida. 

Yfirvöld telja að maðurinn sé einn að verki. Alríkislögreglan er með viðbragð við bænahúsið og vinnur að málinu með löggæsluyfirvöldum á svæðinu og sérfræðingum í samningaræðum við gíslatökumenn. Heimavarnarráðuneyti Bandaríkjanna hefur þá verið upplýst um stöðuna. 

Fram kemur í frétt AP um málið að alríkislögreglan sé í sambandi við gíslatökumanninn. Engar fregnir hafa borist af því að nokkur sé særður inni í bænahúsinu. 

Fréttastofa Fort Worth Star-Telegram greinir frá því að bænastund í bænahúsinu hafi verið í beinu streymi á Facebook-síðu bænahússins í morgun. Á upptökum úr streyminu megi heyra karlmann öskra um trúarbrögð og svo virðist vera sem hann hafi verið mjög reiður. Ekkert hafi þó sést á upptökunni sem sýni hvað hafi verið í gangi inni í bænahúsinu. 

Rétt eftir klukkan tvö í dag hafi maðurinn heyrst segja í streyminu: „Þú/Þið verðið að gera eitthvað. Ég vil ekki sjá þennan mann dáinn.“ Andartökum síðar hafi streymið rofnað. Samkvæmt frétt Star-Telegram heyrðist maðurinn ítrekað tala um Íslam, kalla ódæðisorð, tala um systur sína og um það að hann væri að fara að deyja.  

Sérsveit lögreglunnar í Colleyville var kölluð út um klukkan 11 í morgun að staðartíma til þess að flytja íbúa af svæðinu. 

Fréttin verður uppfærð þegar frekari upplýsingar berast. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.