Enski boltinn

Der­by úr öskunni í eldinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Wayne Rooney á erfitt verkefni fyrir höndum hjá Derby County.
Wayne Rooney á erfitt verkefni fyrir höndum hjá Derby County. Marc Atkins/Getty Images)

Tímabilið hefur ekki beint verið dans á rósum hjá enska B-deildarliðinu Derby County. Liðið situr á botni deildarinnar eftir að 21 stig var tekið af þeim vegna fjárhagsvandræða. Þá hefur liðið verið sett í félagaskiptabann.

Eins ótrúlegt og það hljómar væri Derby um miðja deild ef ekki hefði verið tekið 21 stig af liðinu vegna fjárhagsvandræða þess. Leikmannahópurinn er örþunnur og virðist sem lærisveinar Waynes Rooney séu að knýja fram kraftaverk leik eftir leik.

Vandræðin hafa hins vegar haldið áfram í janúar þar sem liðið hefur verið sett í félagaskiptabann. Það er það má ekki sækja nýja leikmenn, eða semja við leikmenn sem eru að renna út á samningi.

Miðvörðurinn Phil Jagielka hafði aðeins samið til áramóta en hann hefur spilað stóra rullu í liði Derby það sem af er leiktíð. Félagið má hins vegar ekki semja við hann sökum félagaskiptabannsins og því virðist sem Jagielka sé á leið til Stoke City.

Ástæðan fyrir banninu er sú að Derby hefur ekki tekist að leggja fram áætlun sem sýnir fram á hvernig félagið mun borga skuldir sínar.

Það er ljóst að Wayne Rooney á enn erfiðara verkefni fyrir höndum en upphaflega var búist við. Samkvæmt Sky News ku Rooney ekki hafa tekið því vel er hann frétti að félagið gæti ekki sótt nýja leikmenn eða framlengt samning Jagielka.

Rooney virðist þó ekki ætla að gefast upp og ef liðið nær í jafn mörg stig á síðari helming tímabilsins og það gerði á þeim fyrri gæti Derby tekist hið ómögulega. Það er að halda sæti sínu í B-deild þó allt sé í rjúkandi rúst hjá félaginu.


Championship-deildin er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. EFL Championship er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.