Enski boltinn

Segir biturð Gerrards út í United hafa hrakið bróður sinn frá Villa

Sindri Sverrisson skrifar
Axel Tuanzebe er mættur í titilbaráttuna á Ítalíu með Napoli.
Axel Tuanzebe er mættur í titilbaráttuna á Ítalíu með Napoli. Getty/Franco Romano

Axel Tuanzebe, miðvörður Manchester United, er mættur til Napoli að láni eftir að hafa síðustu ár verið lánaður til Aston Villa. Hann lék aðeins átta mínútur undir stjórn nýs stjóra Villa, Stevens Gerrard.

Tuanzebe var lánaður til Villa í sumar en lánsdvölinni lauk fyrr en ella og bróðir hans og umboðsmaður, Dimitri, kom honum til Ítalíu.

Dimitri vill meina að það hvernig Liverpool-goðsögninni Gerrard líði gagnvart Manchester United hafi haft áhrif á stöðu Tuanzebe hjá Villa, eftir ráðningu Gerrards í nóvember.

„Axel ákvað ekki að færa sig um set fyrr en það varð mjög ljóst að hann væri ekki fyrsta val stjórans í stöðu miðvarðar auk þess sem tilboð Napoli var mjög freistandi,“ sagði Dimitri við ESPN.

„Ég er með mjög blendnar tilfinningar gagnvart tíma Axels hjá Villa. Hann er dáður af stuðningsmönnunum eftir að hafa fært liðinu mikið í þeim árangri sem það náði í næstefstu deild, þegar hann var lykilmaður í að koma liðinu upp í úrvalsdeildina.

Hins vegar, eftir komu Stevens Gerrard á Villa Park, þá var eins og rígurinn á milli Man. United og Liverpool lifnaði við.

Til að fyrirbyggja misskilning þá var Axel opinn fyrir því að vera áfram hjá Villa. Hann elskar stuðningsmennina og að vera í Birmingham en hann þarf líka að byggja upp ferilinn og ná fram sínu besta í umhverfi þar sem hann fær sanngjörn tækifæri til að spila,“ sagði Dimitri.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.