Erlent

Finnar segja langtímaáhrif Covid geta orðið að stór­slysi

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Heilbrigðisstarfsfólk að störfum í kórónuveirufaraldrinum.
Heilbrigðisstarfsfólk að störfum í kórónuveirufaraldrinum. EPA

Stjórnvöld í Finnlandi hafa áhyggjur af langtímaáhrifum kórónuveirusjúkdómsins og velta því upp hvort afleiðingarnar geti hreinlega orðið að stórslysi fyrir heilbrigðiskerfið og þjóðfélagið í heild. Málið var kynnt á pallborðsumræðum í Finnlandi nýverið.

Nýleg rannsókn í Finnlandi sýnir að um helmingur fullorðinna og tvö prósent barna glími við langvarandi afleiðingar af völdum sjúkdómsins. Þrátt fyrir að flestir smitaðra hafi sýnt lítil einkenni þar í landi síðustu vikur, séu möguleg langtímaáhrif áhyggjuefni. Þá geti einkennalitlir eða einkennalausir einnig þróað með sér langvarandi veikindi.

Krista Kiuru, heilbrigðisráðherra Finnlands, hefur áhyggjur af stöðunni: „Það stafar af þessu ógn og það eru líkur á að við munum jafnvel koma til með að sjá nýjan hóp sjúklinga sem glíma við langvarandi sjúkdóma. Það eru ekki bara fullorðnir sem eru í þessum hópi heldur líka börn,“ segir heilbrigðisráðherrann.

Risto Roine, prófessor í taugasjúkdómum, tekur undir áhyggjur heilbrigðisráðherrans og segir kórónuveiruna geta aukið líkur á taugasjúkdómum á borð við Alzheimer og Parkinsons.

Aukning hefur verið í fjölda smita í Finnlandi undanfarið en tæplega tíu þúsund greindust þar í landi á föstudaginn. Í heildina hafa rúmlega þrjú hundruð þúsund Finnar smitast af sjúkdómnum. Reuters greinir frá.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.