Erlent

Fannst á Goog­le Maps eftir tuttugu ár á flótta

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Rannsakendur málsins þóttu eitthvað kannast við manninn á myndinni.
Rannsakendur málsins þóttu eitthvað kannast við manninn á myndinni. Google Street View

Hinum 61 árs gamla Ítala, Gioacchino Gammino, tókst að flýja úr fangelsi fyrir tuttugu árum síðan. Gammino var ákærður fyrir morð en hann fannst á Spáni með atbeina Google Maps í desember.

Gammino er talinn hafa tengst Sikileysku glæpagengi og hefur þónokkurn sakaferil á bakinu. Árið 1999 var hann handtekinn og fangelsaður grunaður um morð. Þegar upptökur á sjónvarpsþætti fóru fram í fangelsinu er Gammino talinn hafa nýtt sér tækifærið og hreinlega gengið út úr fangelsinu. Gammino flúði þá til Spánar og skipti um nafn.

Yfirvöld á Ítalíu höfðu rannsakað flóttann allar götur síðan Gammino tókst að sleppa úr fangelsinu. Ítalir fengu veður af því að Gammino hefði möguleg tengsl við litla matvörubúð í smábæ á Spáni. Rannsakendur ákváðu því að fletta versluninni upp á Google Maps og fyrir framan verslunina stóð maður.

Maðurinn á myndinni líktist Gammino og rannsakendur leituðu þá á náðir samfélagsmiðla. Þar fannst mynd af manninum, sem enn líktist strokufanganum. Gammino hafði eðli málsins samkvæmt elst nokkuð á þessum tuttugu árum en með hjálp tölvutækni var hægt að búa til mynd sem gaf yfirvöldum vísbendingu um hvernig hann kynni að líta út í dag.

Yfirvöld gátu þá borið kennsl á að maðurinn væri í raun Gammino og handtóku hann stuttu síðar. Til stendur að flytja hann til Ítalíu á næstu vikum en þar verður hann væntanlega ákærður fyrir morðið og flóttann. Saksóknari gefur ekki upp hvort hann hafi stundað glæpastarfsemi á meðan flóttanum stóð. New York Times greinir frá.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×