Enski boltinn

Tuchel treystir því að Rüdiger skrifi undir nýjan samning

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Samningur Antonio Rüdiger við Chelsea rennur út í sumar.
Samningur Antonio Rüdiger við Chelsea rennur út í sumar. Mike Hewitt/Getty Images

Thomas Tuchel, knattspyrnustjóri Chelsea, virðist vera handviss um það að varnarmaður liðsins, Antonio Rüdiger, muni skrifa undir nýjan samning við félagið.

Framtíð varnarmannsins hefur verið í lausu lofti síðustu mánuði og um tíð virtist það bara tímaspursmál hvenær Þjóðverjinn yrði kynntur sem nýr leikmaður Real Madrid á Spáni.

Samningur hans við Chelsea rennur út í sumar og nú þegar félagsskiptaglugginn opnaði á fyrsta degi ársins mátti Rüdiger byrja viðræður við önnur félög.

Rüdiger hefur verið lykilmaður í varnarleik Chelsea á tímabilinu, en þjálfari liðsins virðist telja það ólíklegt að hann sé á förum.

„Málið er í góðum höndum af því að ég treysti klúbbnum 100 prósent og ber einnig traust til leikmanns míns, þannig að þetta er ekkert vandamál fyrir mig,“ sagði Tuchel.

„Hann er náungi sem þarf að treysta þér, hann þarf að finna fyrir tengingu og trausti og hann vill finna það í mínútunum sem hann fær.“

„Ég held að Rüdiger sé ekki náungi sem þarf að spjalla oft við yfir kaffibolla eða sem þarf að hlúa sérstaklega að. Hann er algjör fagmaður og hann hefur sannað það. Hann er gríðarlega mikilvægur fyrir okkur og enn hefur ekkert breyst - viðræðurnar standa yfir.“

Rüdiger á að baki 49 leiki fyrir þýska landsliðið, en síðan hann gekk til liðs við Chelsea árið 2017 hefur hann unnið FA bikarinn tvisvar, Evrópudeildina og Meistaradeildina.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.