Enski boltinn

Tuchel segir heimskulegt að halda að Chelsea geti barist um titilinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Thomas Tuchel var ekki skemmt eftir jafnteflið við Brighton.
Thomas Tuchel var ekki skemmt eftir jafnteflið við Brighton. getty/Robin Jones

Thomas Tuchel, knattspyrnustjóri Chelsea, var í vondu skapi eftir jafnteflið við Brighton í gær og kvartaði yfir ástandinu á leikmannahópi Evrópumeistaranna og dómgæslunni í leiknum.

Romelu Lukaku kom Chelsea yfir í leiknum í gær en Danny Welbeck jafnaði fyrir Brighton í uppbótartíma. Chelsea er nú átta stigum á eftir toppliði Manchester City í ensku úrvalsdeildinni.

Eftir leikinn var Tuchel spurður að því hvort titilvonir Chelsea væru úr sögunni.

„Hvernig ættum við að vera í titilbaráttu? Við erum með sjö leikmenn með veiruna. Fimm eða sex leikmenn eru frá í sex vikur eða meira. Hvernig eigum við að berjast um titilinn. Þeir sem eru með fullmannaðan hóp og alla á æfingum hafa kraft og getu til að vinna deildina,“ sagði Tuchel. „Það væri heimskulegt af okkur að halda að við gætum gert það vegna veirunnar og meiðsla.“

Tveir leikmenn Chelsea fóru meiddir af velli í gær; Recce James og Andreas Christiansen. Ekki liggur fyrir hversu lengi þeir verða frá.

Tuchel var afar ósáttur við dómgæsluna í leiknum á Amex leikvanginum í gær og taldi Chelsea svikið um vítaspyrnu og jafnvel mark.

„Þetta var hundrað prósent víti með Christian Pulisic og svo 50-50 barátta hjá Mason Mount rétt fyrir jöfnunarmarkið. Af hverju þarf hann [Mike Dean] að flauta áður en boltinn fer yfir línuna? Við erum með VAR til að skoða þetta. Er hann svona viss eða vill hann halda spennunni gangandi,“ sagði Tuchel. „Og vítið, það er grín. Í alvöru, það er grín að VAR hafi ekki skoðað það.“

Næsti leikur Chelsea er gegn Liverpool á nýársdag. Þar mætast liðin í 2. og 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×