Morðin hafa vakið mikla reiði meðal landsmanna eftir að ljósmyndir af þorpinu, í kjölfar ódæðisverksins, fóru í dreifingu á samfélagsmiðlum. Mikil óánægja hefur verið almennt með störf herforingjastjórnarinnar, sem tók völd í febrúar á þessu ári.
Martin Griffiths, aðstoðarframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðana í mannréttindamálum, segist sleginn yfir fréttunum og krefst þess að stjórnvöld í Myanmar láti rannsaka atburðinn. Þá hefur bandaríska sendiráðið í Mjanmar lýst yfir andúð á morðunum og krafist þess að ofbeldi gegn almennum borgurum í Mjanmar verði hætt.
Barnaheill hafa hætt allri starfsemi í landinu, tímabundið í það minnsta, en svo virðist sem starfsmennirnir, sem voru á leið heim í jólafrí, hafi lent í átökunum miðjum. Staðfest hefur verið að ráðist hafi verið á bíl þeirra og kveikt í honum en óljóst er hvað varð um fólkið.

Bæjarbúi í Mo So lýsti því í samtali við fréttastofu AP að hann hafi séð starfsmennina flýja átökin milli stjórnarandstæðinga og hersins á föstudag. Þeir hafi svo verið myrtir eftir að stjórnarherinn handtók þá við að reyna að komast í flóttamannabúðir nærri bænum.
Þá greina erlendir fjölmiðlar frá því að réttarhöldunum yfir Aung San Suu Kyi, lýðræðislega kjörnum leiðtoga Mjanmar, hafi verið frestað fram í janúar. Suu Kyi var handtekinn af herforingjastjórninni í febrúar, þegar hún rændi völdum, og hefur síðan verið ákærð fyrir tugi lögbrota.
Kveða átti upp dóm í tveimur málum gegn henni í dag, annars vegar fyrir að hafa haft í fórum sínum ólöglegar talstöðvar. Verði Suu Kyi sakfelld fyrir allt það sem hún hefur verið ákærð fyrir gæti hún átt yfir höfði sér meira en 100 ár í fangelsi en hún hefur neitað allri sök og sagt ákærurnar pólitískar.