Enski boltinn

Rangnick ræður til sín annan aðstoðarmann

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Ralf Rangnick.
Ralf Rangnick. EPA-EFE/PETER POWELL

Skotinn Ewan Sharp hefur verið ráðinn til starfa hjá enska stórveldinu Manchester United en hann starfaði síðast fyrir Lokomotiv Moskvu, þar sem núverandi stjóri Man Utd, Ralf Rangnick, var yfirmaður leikmannamála.

Þetta kom fram í tilkynningu frá enska félaginu í dag en þar segir að Sharp sé ráðinn inn sem aðstoðarþjálfari og leikgreinandi.

Töluverðar breytingar hafa orðið á þjálfarateymi Manchester United síðan Rangnick tók við stjórnartaumunum af Ole Gunnar Solskjær í síðasta mánuði en Michael Carrick, sem var annar af aðstoðarmönnum Solskjær, sagði starfi sínu lausu þegar Rangnick var ráðinn.

Á dögunum tók Kieran Mckenna svo við stjórastarfinu hjá Ipswich Town en hann var aðstoðarmaður Solskjær og hélt áfram sínu starfi við hlið Rangnick, þar til hann fékk tilboð frá Ipswich í síðustu viku.

Rangnick þekkir vel til Sharp þar sem þeir störfuðu saman í Rússlandi en þá hefur Sharp einnig starfað fyrir New York Red Bulls og Toronto FC, þar sem hann starfaði með Chris Armas sem var ráðinn til Man Utd skömmu eftir að Rangnick tók við.

Þá hefur þýski íþróttasálfræðingurinn Sascha Lense einnig verið ráðinn til Man Utd síðan Rangnick tók við og ljóst að nýi stjórinn á Old Trafford er að taka til hendinni í starfsliðinu hjá félaginu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×