Íslenski boltinn

Heimir missir aðstoðarþjálfarann til Svíþjóðar

Sindri Sverrisson skrifar
Srdjan Tufegdzic og Heimir Guðjónsson hafa þjálfað Val síðustu tvö ár. Á milli þeirra er fyrirliðinn Haukur Páll Sigurðsson.
Srdjan Tufegdzic og Heimir Guðjónsson hafa þjálfað Val síðustu tvö ár. Á milli þeirra er fyrirliðinn Haukur Páll Sigurðsson. vísir/bára

Knattspyrnuþjálfarinn Srdjan Tufegdzic verður í dag kynntur sem nýr þjálfari sænska 1. deildarliðsins Öster og er því hættur sem aðstoðarþjálfari Vals.

Túfa, eins og Tufegdzic er jafnan kallaður, hefur verið aðstoðarþjálfari Vals frá því að Heimir Guðjónsson tók við liðinu fyrir tveimur árum. Hann hefur hins vegar starfað við þjálfun mun lengur á Íslandi, eftir að hafa áður verið leikmaður KA á árunum 2006-2012.

Túfa er frá Serbíu en er með íslenskan ríkisborgararétt. Hann hóf þjálfaraferilinn hjá KA sem hann stýrði upp úr 1. deild árið 2016 eftir langa bið KA-manna, en lét af störfum á Akureyri haustið 2018. 

Hann stýrði svo Grindavík í eitt ár, sumarið 2019, en hætti þar eftir að liðið féll niður í 1. deild og flutti sig yfir á Hlíðarenda.

Túfa tekur við Öster af Denis Velic sem endaði með liðið í 5. sæti sænsku 1. deildarinnar í ár. Með liðinu leikur Alex Þór Hauksson, fyrrverandi miðjumaður Stjörnunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×