Erlent

Bretar fá afar misvísandi skilaboð um hegðun í aðdraganda jóla

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Bretum er bæði sagt að halda sig heima en líka að það sé í lagi að fara í partý.
Bretum er bæði sagt að halda sig heima en líka að það sé í lagi að fara í partý. epa/Andy Rain

Bretar fá nú misvísandi skilaboð frá yfirvöldum en á sama tíma og Boris Johnson forsætisráðherra hefur sagt að fólk eigi ekki að þurfa að hætta við boð í aðdraganda jóla hvetur Chris Whitty, yfirmaður heilbrigðismála, fólk til að hitta ekki aðra en nána aðstandendur. 

Whitty segir ljóst að sjúkrahúsinnlögnum muni fjölga mikið vegna mikillar útbreiðslu SARS-CoV-2 en 78.610 greindust með Covid-19 á einum sólahring í vikunni. 

Um er að ræða metfjölda.

Stjórnvöld hafa gefið út að fólk ætti ekki að þurfa að aflýsa jólapartýum eða skólaskemmtunum en á sama tíma hert reglur um grímunotkun og beðið fólk um að vinna heima ef það mögulega getur.

Ástæðan fyrir hinum misvísandi skilaboðum kann að vera pólitísk að hluta. 

Tilvikum fjölgar gríðarlega og heilbrigðisyfirvöld vara við að heilbrigðiskerfið muni gefa sig vegna nýs afbrigðis en á sama tíma er Íhaldsflokkurinn klofinn þegar kemur að sóttvarnaðgerðum.

Guardian greinir frá því að greindum við háskóla hafi fjölgað og menn séu nú uggandi vegna þess mikla fjölda nemenda sem mun ferðast heim yfir jólin og mögulega dreifa veirunni. 

Hafa námsmenn verið beðnir um að fara í próf áður en þeir fara heim og þiggja örvunarbólusetningu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×