Íslenski boltinn

Sif spilar undir stjórn eiginmannsins hjá Selfossi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sif Atladóttir lék síðast á Íslandi 2009.
Sif Atladóttir lék síðast á Íslandi 2009. vísir/bára

Landsliðskonan Sif Atladóttir er gengin í raðir Selfoss. Þar mun hún leika undir stjórn eiginmanns síns, Björns Sigurbjörnssonar.

Sif yfirgaf Kristianstad í haust eftir áratugardvöl hjá félaginu. Hún lék áður með Saarbrücken í Þýskalandi í eitt ár. Sif, sem er 36 ára, lék með Val, Þrótti, FH og KR áður en hún fór í atvinnumennsku.

„Ég er mjög spennt fyrir því að spila fyrir Selfoss á næsta ári. Ég fylgist alltaf með deildinni heima þó að ég hafi verið erlendis og það hefur verið gaman að sjá stígandann hjá Selfoss síðastliðin ár. Það eru margar ungar og efnilegar stelpur sem hafa fengið stór hlutverk í liðinu og þarna er flottur hópur sem verður gaman að fá að kynnast,“ segir Sif í fréttatilkynningu frá Selfossi.

Sif hefur leikið 84 landsleiki og farið með landsliðinu á þrjú Evrópumót. Hún stefnir á að fara á það fjórða á Englandi næsta sumar.

Björn var ráðinn þjálfari Selfoss í haust. Hann tók við starfinu af Alfreð Elíasi Jóhannssyni sem hætti eftir síðasta tímabili. Alfreð stýrði Selfossi í fimm ár og gerði liðið að bikarmeisturum 2019. Björn var áður aðstoðarþjálfari Kristianstad.

Á síðasta tímabili endaði Selfoss í 4. sæti Pepsi Max-deildarinnar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.