Erlent

For­eldrar byssu­­mannsins fundust í felum í kjallara

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
James og Jennifer Crumbley eru ákærð fyrir manndráp af gáleysi.
James og Jennifer Crumbley eru ákærð fyrir manndráp af gáleysi. EPA

Foreldrar hins 15 ára Ethans Crumbley, sem ákærður er fyrir hryðjuverk eftir að hafa skotið sjö táninga til bana og sært sjö aðra í skólanum sínum í Michigan í Bandaríkjunum, hafa verið handteknir. Foreldrarnir eru ákærðir fyrir manndráp af gáleysi fyrir að hafa hundsað viðvörunarmerki í aðdraganda árásarinnar.

Sjá einnig: For­eldrar byssu­mannsins í Michigan á­kærðir

Breska ríkisútvarpið greindi frá því að foreldrarnir, James og Jennifer Crumbley, hafi fundist í felum í kjallara í Detroit. Þau voru handtekin og færð fyrir dómara, sem setti þeim tryggingargjald upp á hálfa milljón dala hvoru, þar sem taldar voru miklar líkur á að þau myndu reyna að flýja, fengju þau að ganga laus fram að réttarhöldum yfir þeim.

Ethan Crumbley er meðal annars ákærður fyrir hryðjuverk.EPA

Saksóknarar í málinu segja að Ethan, sonur hjónanna, hafi notað byssu föður síns við árásina á skólann sinn. Hann neitar sök í öllum ákæruliðum, líkt og foreldrar hans.

Lögmaður foreldranna segir hjónin hafa ætlað að gefa sig fram við lögregluna í morgun. Fjölmiðlar í Bandaríkjunum greina hins vegar frá því að þau hafi tekið út um fjögur þúsund dollara í reiðufé og slökkt á farsímum sínum, áður en þau náðust.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×