Auðvelt hjá Arsenal í seinni hálfleik

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Gabriel Martinelli skoraði síðara mark Arsenal
Gabriel Martinelli skoraði síðara mark Arsenal EPA-EFE/NEIL HALL

Það var talsverð spenna fyrir leikinn enda vildu Arsenal og þeirra stuðningsmenn svara fyrir stórt tap gegn Liverpool í síðustu umferð. Andstæðingurinn líka vel til þess fallinn, Newcastle. Eftir markalausan fyrri hálfleik brutu leikmenn Arsenal ísinn í þeim síðari og unnu fínan sigur, 2-0.

Leikurinn byrjaði fjörlega og áttu bæði liðin ágætis tækifæri. Markverðir liðana þurftu nokkrum sinnum að taka á honum stóra sínum og áttu þeir báðir glæsilegar markvörslur. Jonjo Shelvey átti frábært skot sem söng í þverslánni en langbesta færi hálfleiksins átti framherjinn Pierre-Emerick Aubameyang. Hann fékk þá boltann eftir klafs í teignum og átti skot af meters færi sem fór framhjá. Ótrúlegt klúður. 0-0 í hálfleik en miðað við gang leiksins yrði ekki svo mikið lengur.

Á 56. mínútu dró til tíðinda. Arsenal hélt boltanum vel innan liðsins og þeir Bukayo Saka, Emile Smith Rowe og Nuno Tavares hjálpuðust að við að sundurspila Newcastle á vinstri vængnum. Allt í einu var Saka kominn í gegn. Honum urðu ekki á nein mistök og hann hamraði boltann í fjærhornið með vinstri. 1-0 og allt á réttri leið hjá Lundúnaliðinu.

Það var svo tíu mínútum síðar sem Arsenal tvöfölduðu forystu sína. Takehiro Tomiyasu átti á skemmtilega sending utan af kanti sem Gabriel Martinell afgreiddi frábærlega. Fínt mark og Arsenal komnir í ansi góð mál gegn botnliði Norðanmanna.

Leikurinn spilaðist svo þægilega fyrir heimamenn það sem eftir lifði og þrjú stig í hús hjá Mikel Arteta og félögum. Arsenal er eftir leikinn enn í fimmta sætinu, með jafnmörg stig og West Ham en slakari markatölu. Newcastle er hins vegar áfram á botninum og það verður spennandi að sjá hvað moldríkir eigendur liðsins gera í janúar.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira