Erlent

Fyrst kvenna til að gegna em­bætti for­sætis­ráð­herra í Sví­þjóð

Atli Ísleifsson skrifar
Magdalena Andersson er fyrsta konan til að gegna embætti forsætisráðherra í Svíþjóð.
Magdalena Andersson er fyrsta konan til að gegna embætti forsætisráðherra í Svíþjóð. EPA

Magdalena Andersson, formaður sænska Jafnaðarmannaflokksins, er nýr forsætisráðherra Svíþjóðar. Hún tekur við embættinu af Stefan Löfven og er jafnframt fyrsta konan í sögu landsins til að gegna embættinu.

Atkvæðagreiðsla fór fram í sænska þinginu rétt í þessu eftir að þingforsetinn tilnefndi Andersson. Í Svíþjóð er málum þannig háttað að meirihluti þingmanna þarf einungis að umbera forsætisráðherrann, það ekki greiða atkvæði gegn honum.

Alls greiddu 117 atkvæði með Andersson, en 174 greiddu atkvæði. 175 þurftu að greiða atkvæði gegn tilnefningunni til að koma í veg fyrir að Andersson tæki við. Mikill fögnuður braust út meðal stjórarþingmannanna eftir að lá fyrir að Andersson myndi taka við embættinu. 

Andersson mun leiða minnihlutastjórn Jafnaðarmannaflokksins og Græningja, en Miðflokkurinn og Vinstriflokkurinn munu verja stjórnina falli, líkt og flokkarnir gerðu með stjórn Löfvens síðan í sumar. Þó er talið líklegt að Andersson muni þurfa að stýra landinu á fjárlögum borgaralegu flokkanna þar sem Miðflokkurinn hefur tilkynnt að hann muni ekki greiða atkvæði með fjárlagafrumvarpi stjórnarinnar.

Andersson hefur gegnt embætti fjármálaráðherra Svíþjóðar frá árinu 2014. Löfven tilkynnti í haust að hann hugðist segja af sér sem forsætisráðherra og formaður Jafnaðarmannaflokksins í tengslum við flokksþing Jafnaðarmannaflokksins sem fram fór í byrjun þessa mánaðar.

Þar sem Andersson hefur nú tekið við embætti forsætisráðherra Svíþjóðar gegna fjórar konur nú embætti forsætisráðherra á Norðurlöndum – Andersson í Svíþjóð, Katrín Jakobsdóttir á Íslandi, Mette Frederiksen í Danmörku og Sanna Marin í Finnlandi. Jonas Gahr Støre tók við embætti forsætisráðherra í Noregi af Ernu Solberg í síðasta mánuði.

Þingkosningar fara fram í Svíþjóð í september á næsta ári.


Tengdar fréttir

„Nískasti fjár­mála­ráð­herra ESB“ lík­legastur til að taka við

Stefan Löfven greindi frá því um síðustu helgi hann ætli sér að láta af störfum sem forsætisráðherra Svíþjóðar í haust. Hann muni ekki bjóða sig fram til áframhaldandi formennsku í Jafnaðarmannaflokknum á landsþingi í nóvember. Skiljanlega eru farnar af stað miklar umræður um hver muni taka við formennsku í flokknum og yrði þá í kjörstöðu til að taka einnig við embætti forsætisráðherra landsins.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.