Erlent

Til­nefnir Anders­son sem næsta for­sætis­ráð­herra

Atli Ísleifsson skrifar
Magdalena Andersson var nýverið kjörin nýr formaður sænskra Jafnaðarmanna. Hún tók við stöðunni af Stefan Löfven.
Magdalena Andersson var nýverið kjörin nýr formaður sænskra Jafnaðarmanna. Hún tók við stöðunni af Stefan Löfven. AP

Forseti sænska þingsins hefur tilnefnt Magdalenu Andersson, fjármálaráðherra og nýkjörinn formann sænska Jafnaðarmannaflokksins, sem næsta forsætisráðherra landsins.

Þingmenn munu greiða atkvæði um tillöguna á miðvikudagismorgun og þarf þar meirihluti að umbera Andersson, það er ekki greiða atkvæði gegn tillögunni, til að hún taki við embættinu af Stefan Löfven og verði þar með 34. forsætisráðherra Svíþjóðar og fyrsta konan til að gegna embættinu í landinu.

Þingforsetinn Andreas Norlén tilkynnti um þetta á fréttamannafundi í hádeginu, en hann hafði veitt Andersson frest til dagsins í dag til að kanna möguleika á myndun nýrrar stjórnar.

Andersson, sem hefur gegnt embætti fjármálaráðherra Svíþjóðar frá árinu 2014, greindi Norlén frá því í morgun að ekki hafi náðst samkomulag við formann Vinstriflokksins, en að samtölin hafi verið í „góðum anda“. Hafa flokkarnir helst deilt um lífeyrisgreiðslur sem Vinstriflokkurinn telur vera of lágar. Andersson hefur þó ekki farið fram á lengri frest til viðræðna og því hafi Norlén ákveðið að tilnefna Andersson núna.

Þingkosningar fara fram í Svíþjóð í september 2022 og telur Andersson rétt að halda viðræðum við Vinstriflokkinn áfram fram að atkvæðagreiðslunni á þinginu á miðvikudaginn.

Ríkisstjórn Jafnaðarmannaflokksins og Græningja hefur síðan í sumar verið varin vantrausti af Miðflokknum og Vinstriflokknum. Hins vegar þarf ný atkvæðagreiðsla um forsætisráðherra að fara fram þar sem Löfven sagði af sér á dögunum.

Þingforseti hefur fjórar tilraunir til að tilnefna forsætisráðherra, en fari svo í atkvæðagreiðslum á þinginu að meirihluti umberi ekki þann sem tilnefndur er þarf að boða til aukakosninga. Þingkosningar munu fara fram í Svíþjóð í september á næsta ári, óháð því hvort komi til aukakosninga. 


Tengdar fréttir

Anders­son tekin við sem for­maður af Löfven

Magdalena Andersson, fjármálaráðherra Svíþjóðar, var í gær kjörin formaður sænska Jafnaðarmannaflokksins á landsþingi flokksins í Gautaborg. Hún tekur við embættinu af Stefan Löfven sem tók á sínum tíma við stöðunni af Håkan Juholt árið 2012.

Stefan Löfven búinn að segja af sér

Stefan Löfven hefur sagt af sér sem forsætisráðherra Svíþjóðar en hann hefur gegnt embættinu frá árinu 2014. Löfven gekk á fund Andreas Norlén þingforseta klukkan 11:30 að íslenskum tíma þar sem hann tilkynnti um afsögnina.

„Nískasti fjár­mála­ráð­herra ESB“ lík­legastur til að taka við

Stefan Löfven greindi frá því um síðustu helgi hann ætli sér að láta af störfum sem forsætisráðherra Svíþjóðar í haust. Hann muni ekki bjóða sig fram til áframhaldandi formennsku í Jafnaðarmannaflokknum á landsþingi í nóvember. Skiljanlega eru farnar af stað miklar umræður um hver muni taka við formennsku í flokknum og yrði þá í kjörstöðu til að taka einnig við embætti forsætisráðherra landsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×