Enski boltinn

Derby drottningin Dagný kát í leikslok

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagný Brynjarsdóttir fagnar sigurmarkinu sínu með liðsfélaga sínum Kate Longhurst.
Dagný Brynjarsdóttir fagnar sigurmarkinu sínu með liðsfélaga sínum Kate Longhurst. Getty/John Walton

Íslenska landsliðskonan Dagný Brynjarsdóttir var hetja West Ham liðsins í sigri í Lundúnaslag í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Dagný skoraði þá eina mark leiksins þegar West Ham vann 1-0 sigur á Tottenhma í derby-slag. Heimasíða West Ham liðsins tók viðtal við Dagnýju í leikslok.

„Það var mjög gaman að skora á móti Tottenham. Þetta var fyrsti leikurinn minn á móti Spurs. Ég veit að þetta er derby leikur og það er því frábært að fá þrjú stig og ná að skora markið,“ sagði Dagný Brynjarsdóttir.

„Mér finnst ég hafa getað skorað fleiri mörk en ég hef gert hingað til. Vonandi fer ég að klára færin mín betur og þetta er að koma. Ég fékk eitt tækifæri í dag og kláraði það sem ég er mjög ánægð með,“ sagði Dagný.

Þetta var góð vika fyrir West Ham liðið sem sló Birmingham út úr deildarbikarnum í miðri viku og gerði jafntefli við Reading um síðustu helgi.

„Auðvitað vildum við öll þrjú stigin á móti Reading og það eru vonbrigði að hafa ekki unnið þann leik líka. Sjö stig af níu mögulegum í einni viku er samt fínt og við getum því ekki kvartað mikið,“ sagði Dagný.

„Við vorum ekki ánægð með fyrri hálfleikinn okkar í dag en við ræddum það í hálfleik hvað við þurftum að gera. Við vissum það allar að við þurftum að gera betur. Við gerðum betur í seinni hálfleiknum og stjórnuðum leiknum í lokin sem hefur ekki verið okkar styrkleiki á þessu tímabili,“ sagði Dagný.

„Tottenham er með gott lið og þetta var mikil barátta, mikið um aukaspyrnur og fólk á jörðinni. Við skiluðum ruslavinnunni vel í dag og börðumst vel allan leikinn. Á endanum þá héldum við marki okkar hreinu og náðum svo inn markinu sem er það mikilvægasta,“ sagði Dagný.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×