Erlent

Saka Lúkasjenka um að flytja fólk aftur að landamærunum

Samúel Karl Ólason skrifar
Þessi mynd var tekin við landamæri Hvíta-Rússlands og Póllands.
Þessi mynd var tekin við landamæri Hvíta-Rússlands og Póllands. AP/Maxim Guchek

Yfirvöld í Póllandi segja Hvít-Rússa flytja farand- og flóttafólk í trukkum aftur að landamærum ríkjanna. Verið sé að reyna að þvinga fólkið til að gera tilraun til að fara yfir landamærin. Það gerðist nokkrum klukkustundum eftir að Hvít-Rússar rýmdu búðir fólks nærri landamærunum í gær og virtust flytja fólkið á brott.

Þá var flogið með fólk frá Hvíta-Rússlandi aftur til Íraks í fyrsta sinni í mánuði í gær.

Anna Michalska, talskona landamæravörslu Póllands, sagði á blaðamannafundi í dag að nokkrum klukkustundum eftir að fólkið hefði verið flutt á brott hefðu um 500 manns verið flutt aftur að landamærunum. Þá hefðu hermenn reynt að hjálpa þeim að komast yfir landamærin.  

Samkvæmt frétt Reuters sagði hún fjóra landamæraverði hafa særst.

Undanfarnar vikur hefur mikill fjöldi farandsfólks safnast saman við landamæri Póllands og Hvíta-Rússlands. Ráðamenn Evrópusambandsins saka Alexander Lúkasjenka, einræðisherra Hvíta-Rússlands um að senda fólki að landamærunum að nágrannaríkjunum Póllandi, Litháen og Lettlandi til þess að ná sér niðri á Evrópuríkjum vegna refsiaðgerða þeirra og skapa glundroða.

Hvít-Rússar lokuðu búðum við landamærin í gær og fluttu fjölda fólks í vöruskemmu nærri Grodno.AP/Maxim Guchek

Hann er sakaður um að laða fólk til Hvíta Rússlands með gylliboðum um auðveldan aðgang að Evrópusambandinu. Lúkasjenka hefur þó neitað því. Talið er að um fimm þúsund farand- og flóttamenn séu í Hvíta-Rússlandi, eftir að hundruðum var flogið til Íraks í gær.

Sagði hermenn mögulega hafa hjálpað

Í viðtali við BBC sem birt var í dag sagði Lúkasjenka að það gæti vel verið að hermenn hans hefðu hjálpað fólki yfir landamærin til Póllands. Það væri þó ekki rétt að fólkinu hefði verið boðið til Hvíta-Rússlands.

„Kannski hjálpaði þeim einhver. Ég ætla ekki einu sinni að skoða þetta,“ sagði hann.

Lúkasjenka sagði einnig að hann hefði sagt ráðamönnum í Evrópu að hann ætlaði ekki að stöðva fólkið og það myndi hann aldrei gera því „þau eru ekki að koma til landsins míns, þau eru að koma til ykkar“.

„En ég bauð þeim ekki hingað. Í sannleikanum sagt vill ég ekki að þau fari í gegnum Hvíta-Rússland.“

Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands, sakaði Vladímír Pútín Rússlandsforseta fyrr í mánuðinum um að vera á bak við flóttamannakrísuna sem hefur myndast á landamærum Póllands og Hvíta-Rússlands.

Sjá einnig: Sakar „höfuðpaur í Moskvu“ um að standa að baki flóttamannakrísunni

Blaðamaður BBC spurði Lúkasjenka út í það að hann hefði látið loka um 270 alþjóðasamtökum í Rússlandi frá því í júlí. Við því brást einræðisherrann reiður.

„Við munum slátra öllum þessum úrhrökum sem þið hafið fjármagnað. Þið eruð reið yfir því að við höfum rifið niður þessar byggingar. Þessi alþjóðasamtök eða hvað sem þau eru, sem þið hafið verið að borga fyrir.“


Tengdar fréttir

Beittu háþrýstidælum á farandfólk á landamærunum

Pólskar öryggissveitir beittu háþrýstidælum á farandfólk sem henti steinum að þeim við landamæri Póllands og Hvíta-Rússlands í dag. Lík ungs Sýrlendings var grafið í Póllandi í gærkvöldi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.