Erlent

Leggja gadda­vír á landa­mærin til að æfa við­brögð við flótta­manna­straumi

Kjartan Kjartansson skrifar
Farandfólk við landamæri Póllands og Hvíta-Rússlands. Hvítrússnesk stjórnvöld eru sökuð um að nota fólkið sem peð í deilum sínum við Evrópusambandið.
Farandfólk við landamæri Póllands og Hvíta-Rússlands. Hvítrússnesk stjórnvöld eru sökuð um að nota fólkið sem peð í deilum sínum við Evrópusambandið. Vísir/EPA

Eistnesk stjórnvöld kölluðu hátt á annað þúsund varaliðshermenn út á fyrirvaralausa æfingu þar sem þeir eru látnir leggja gaddavír yfir tugi kílómetra af landamærum landsins að Rússlandi. Æfingin tengist flóttamannavanda sem Hvítrússar eru sakaðir um að valda.

Þúsundir farandsfólks hefur safnast saman við landamæri Póllands og Hvíta-Rússlands undanfarna daga. Ráðamenn Evrópusambandsins saka Alexander Lúkasjenka, einræðisherra Hvíta-Rússlands um að senda fólki að landmærunum að nágrannaríkjunum Póllandi, Litháen og Lettlandi til þess að ná sér niðri á Evrópuríkjum vegna refsiaðgerða þeirra og skapa glundroða.

Eistland á ekki landamæri að Hvíta-Rússlandi en þarlend stjórnvöld segja að á æfingunni setji varaliðsmennirnir gaddavír á fjörutíu kílómetra hluta landamæranna að Rússlandi þar sem mestar líkur eru taldar á að fólk reyni að smygla sér yfir ólöglega, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar. Rússar eru nánir bandamenn Hvítrússa.

„Það sem á sér stað í Póllandi, Litháen og Lettlandi krefst þess einnig að innviðir á landamærum Eistlands séu styrktir,“ segir Elmar Vaher, lögreglustjóri og landamæravörður í Eistlandi.

Æfingin á að standa yfir til 25. nóvember. Eistneska ríkisstjórnin segir að henni sé ætlað að æfa viðbrögð stjórnkerfisins.

Nágrannaríki Hvíta-Rússlands hafa varað við því að deilurnar gætu leitt til hernaðarátaka. Þau hafa kallað út herlið að landamærum sínum og lýst yfir neyðarástandi.


Tengdar fréttir

Beittu háþrýstidælum á farandfólk á landamærunum

Pólskar öryggissveitir beittu háþrýstidælum á farandfólk sem henti steinum að þeim við landamæri Póllands og Hvíta-Rússlands í dag. Lík ungs Sýrlendings var grafið í Póllandi í gærkvöldi.

Pútín svarar hótunum Lúkasjenka

Yfirvöld í Hvíta-Rússlandi hótuðu að skrúfa fyrir gasleiðslur sem liggja til ríkja Evrópusambandsins í vikunni. Vladimir Pútín, forseti Rússlands, tekur hótununum Lúkasjenka, einræðisherra Hvíta-Rússlands, ekki af léttúð. 

Hvít-Rússar hóta að skrúfa fyrir gasið

Yfirvöld í Hvíta-Rússlandi hafa hótað að skrúfa fyrir gasleiðslur sem liggja til ríkja Evrópusambandsins muni það beita ríkinu þvingunum vegna deilu um farendur á landamærum Hvíta-Rússlands og Póllands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×