Erlent

Beittu háþrýstidælum á farandfólk á landamærunum

Kjartan Kjartansson skrifar
Maður hleypur undan vatnsbyssu pólskra hermanna við landamæri Póllands og Hvíta-Rússlands í dag.
Maður hleypur undan vatnsbyssu pólskra hermanna við landamæri Póllands og Hvíta-Rússlands í dag. AP/Leonid Shcheglov/BelTA

Pólskar öryggissveitir beittu háþrýstidælum á farandfólk sem henti steinum að þeim við landamæri Póllands og Hvíta-Rússlands í dag. Lík ungs Sýrlendings var grafið í Póllandi í gærkvöldi.

Þúsundir farandsfólks frá Miðausturlöndum hafa safnast saman á landamærunum undanfarið en Alexander Lúkasjenka, forseti Hvíta-Rússlands, er sakaður um að beina fólkinu þangað ólöglega til þess að ná sér niðri á Evrópusambandsríkjum vegna refsiaðgerða þeirra.

Pólsk stjórnvöld hafa brugðist hart við og sent farandfólkið jafnharðan til baka. Myndband sem þau birtu í dag sýndu liðsmenn öryggissveita beita háþrýstivatnsbyssum á fólkið eftir að einhverjir í hópnum köstuðu flöskum og viðarbútum að pólskum hermönnum, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Innanríkisráðuneyti Póllands segir að lögreglumaður hafi slasast alvarlega þegar hann varð fyrir hlut sem var kastað yfir landamærin. Hann liggi höfuðkúpubrotinn á sjúkrahúsi. 

Þá fullyrti varnarmálaráðuneytið að hvítrússnesk yfirvöld hefðu látið farandfólkið fá hljóðsprengjur til að kasta að pólskum her- og lögreglumönnum. Hvítrússneskt herlið hafi skipulagt árás á landamærin.

Átta farendur hafa látist á landamærunum undanfarna mánuði. Ahmed al-Hassan, nítján ára gamall sýrlenskur piltur sem drukknaði í ánni Bug þegar hann reyndi að komast yfir landamærin, var borinn til grafar í þorpinu Bohoniki í norðaustur Póllandi í gærkvöldi. Fjölskylda hans fylgdist með athöfninni í gegnum fjarfundarbúnað þökk sé sýrlenskum lækni sem fann lík hans.

„Þið náið ekki að sjá mikið en ég vildi segja ykkur að við erum öll fjölskylda. Ég vissi að þið vilduð sjá hann eitt síðasta skipti en það er ekki margt að gera,“ sagði læknirinn Kassam Shahadah við fjölskylduna, að sögn Reuters.

Lítill hópur múslima í Bohoniki bauðst til þess að greftra Hassan að íslömskum sið.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×