Watford niðurlægði Manchester United | Enn þyngist róðurinn hjá Solskjær

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Harry Maguire fékk reisupassann
Harry Maguire fékk reisupassann EPA-EFE/VICKIE FLORES

Manchester United tapaði í fjórða sinn í síðustu fimm leikjum í ensku úrvalsdeildinni í dag. Liðið mætti í heimsókn til Watford og heimamenn gerðu sér lítið fyrir og unnu sigur, 4-1.

Watford byrjaði leikinn betur og áttu liðsmenn Manchester United í stökustu vandræðum með kvika og sterka sóknarmenn Watford. Sérstaklega þá Joshua King og Emmanuel Dennis sem voru báðir virkilega sterkir í dag.

Það dró til tíðinda strax á 11. mínútu. Þá átti Bruno Fernandes mislukkaða sendingu sem fór beint upp í loftið og inn á vítateig liðsins. Þar missti Scott McTominay af boltanum og King kom sér framfyrir hann og féll við. Vítaspyrna dæmd. Ismaila Sarr tók vítið en David De Gea gerði sér lítið fyrir og varði. Kiko skoraði svo úr frákastinu en Jonathan Moss, dómari leiksins, mat það svo að menn hefðu verið of fljótir á sér inn í teiginn og því vítið tekið aftur. Sarr tók aftur víti og aftur varði De Gea. Frábærlega gert hjá Spánverjanum.

Fyrsta markið leit svo dagsins ljós á 28. mínútu og það voru gulklæddir heimamenn sem voru þar að verki. Dennis fann þá King í teignum sem þakkaði pent fyrir sig, tók snertingu á boltann og sendi hann framhjá De Gea í markinu. 1-0 og það mjög verðskuldað.

Watford tvöfaldaði svo forystuna fyrir hálfleikinn. Kiko átti þá sendingu á Sarr vinstra megin í vítateignum. Sarr gerði mjög vel í að koma boltanum í fjærhornið og De Gea náði ekki að verja. 2-0 í hálfleik og væntanlega farið að fara um stuðningsmenn Manchester United.

Emmanuel Dennis var frábær í dagEPA-EFE/VICKIE FLORES

Solskjær gerði breytingar í hálfleik og inn komu Anthony Martial og Donny Van Der Beek. Sá síðarnefndi minnti á sig fljótlega og skoraði með skalla á 50. mínútu eftir frábæran undirbúning Cristiano Ronaldo. Þarna voru gestirnir farnir að taka yfir leikinn og jöfnunarmarkið lá í loftinu.

Það slokknaði í þeirri vonarglætu þegar að fyrirliði liðsins Harry Maguire fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt á 69. mínútu.

Watford gerði svo tvö mörk alveg í lokin en Joao Pedro og Emmanuel Dennis skoruðu báðir í uppbótartíma. 4-1 niðurstaðan og Manchester United stendur eftir með fleiri spurningar en svör.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.