Erlent

Segir ekkert í handritinu hafa kallað eftir því að hleypt væri af byssunni

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Greint var frá kærunni á blaðamannafundi í gær, þar sem Mitchell kom fram ásamt lögmanni sínum Gloriu Allred.
Greint var frá kærunni á blaðamannafundi í gær, þar sem Mitchell kom fram ásamt lögmanni sínum Gloriu Allred. Getty/Rodin Eckenroth

Skrifta sem starfaði við tökur á kvikmyndinni Rust hefur höfðað mál á hendur leikaranum Alec Baldwin og öðrum aðstandendum myndarinnar en hún segir að atriðið sem verið var að mynda þegar byssuskot varð upptökustjóranum Halyna Hutchins að bana hafi ekki kallað á að Baldwin handléki byssuna eða hleypti af.

Mamie Mitchell, sem var sú sem hringdi á lögregluna þegar atvikið átti sér stað, sakar Baldwin um að hafa „spilað rússneska rúllettu“ þegar hann tók í gikkinn án þess að kanna hvort vopnið var hlaðið.

Í kæru Mitchell segir meðal annars að handritið hefði kallað á þrjú skot í nærmynd; eitt af augum Baldwin, annað af blóðblett á öxl leikarans og hið þriðja af brjóstkassa hans, þar sem hann átti að draga byssuna úr hulstrinu.

„Það var ekkert í handritinu sem kallaði á að Baldwin eða nokkur annar hleypti af byssunni,“ segir í kærunni.

Gloria Allred, lögmaður Mitchell, sagði á blaðamannafundi í gær að Baldwin og framleiðendur myndarinnar hefðu hunsað öryggisreglur og sýnt af sér kæruleysi. Baldwin hefði átt að kanna hvort byssan var örugg áður en hann tók í gikkinn eða biðja umsjónarmann vopnsins að gera það.

Að sögn Mitchel stóð hún aðeins í um eins metra fjarlægð frá Baldwin þegar skotið reið af og segist hún endurlifa atvikið reglulega. Segist hún bæði hafa hlotið líkamlegan og andlegan sakaða af.

Engin skýring hefur verið gefin á því hvers vegna raunverulegar byssukúlur voru á tökustað né hvernig stóð á því að byssan var hlaðinn kúlum sem gátu orðið manneskju að bana. Kenningar hafa verið uppi um möguleg skemmdarverk á tökustaðnum af hálfu óánægðs eða óánægðra starfsmanna en lögregla segir ekkert benda til þess að nokkuð sé hæft í þeim.

BBC greindi frá.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×