Erlent

Ætla að víta þingmann sem birti myndband af sér að drepa þingkonu

Kjartan Kjartansson skrifar
Paul Gosar frá Arizona er einn af öfgafyllri þingmönnum Repúblikanaflokksins.
Paul Gosar frá Arizona er einn af öfgafyllri þingmönnum Repúblikanaflokksins. AP/Andrew Harnik

Demókratar í fulltrúadeild Bandaríkjaþings ætla að ávíta þingmanni Repúblikanaflokksins sem birti myndband sem sýndi hann drepa þingkonu og leggja til Joes Biden forseta með sverðum á samfélagsmiðlum. Repúblikanar vildu ekki refsa þingmanninum.

Paul Gosar er umdeildur þingmaður Repúblikanaflokksins frá Arizona en hann hefur meðal annars komið fram á viðburðum með hægriöfgamönnum og dreift upplýsingafalsi um forsetakosningarnar í fyrra. Svo umdeildur er hann að hans eigin systkini hvöttu kjósendur til þess að velja frekar keppinaut hans í þingkosningunum árið 2018.

Fyrir nokkrum dögum birti Gosar teiknimynd sem átt hafði verið við þannig að hann virtist drepast Alexandriu Ocasio-Cortez, fulltrúadeildarþingkonu Demókrataflokksins, og drepa Biden forseta. Gosar hélt því fram að myndbandið væri „táknrænt“ fyrir baráttu flokkanna um innflytjendastefnu en eyddi myndbandinu síðan af samfélagsmiðlasíðum sínum.

Fulltrúadeildin greiðir atkvæði um formlegar ávítur á hendur Gosar í dag, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Þá er kallað eftir því að þingmaðurinn missi sæti sín í tveimur þingnefndum. Hann situ meðal annars með Ocasio-Cortez í eftirlitsnefnd þingsins.

Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildarinnar, sagði að ofbeldishótanir í garð þingmanna og forsetans yrðu ekki umbornar. Hún sagði fréttamönnum jafnframt að það væri svívirðilegt að þingflokkur repúblikana í fulltrúadeildinni hefði ekki aðhafst neitt vegna málsins.

Repúblikanar segja það á móti varhugarvert að meirihlutinn í fulltrúadeildinni noti völd sín til þess að refsa þingmanni minnihlutans og að það setji slæmt fordæmi.

Segir Gosar ógeð sem hafi ekki beðist afsökunar

Ocasio-Cortez er á meðal vinstrisinnaðri þingmanna Demókrataflokksins og repúblikanar hafa reynt að nota hana sem grýlu á kjósendur um að demókratar aðhyllist vinstriöfgahyggju. Hún brást við myndbandinu með því að lýsa Gosar sem ógeðslegum. Myndbandið væru hugarórar hans um að drepa hana. 

Hvorki Gosar né Kevin McCarthy, leiðtogi repúblikana í fulltrúadeildinni, hafi beðið hana afsökunar á myndbandinu. Þess í stað hafi Gosar sakað hana um að vera einhvers konar fulltrúa fólks sem kemur ólöglega til Bandaríkjanna.

Hægrisinnaðir fjölmiðlar hafa meðal annars birt falsaða nektarmynd af Ocasio-Cortez. Hún sakaði einn þingmann Repúblikanaflokksins um að hafa kallað sig „helvítis tík“ þegar þau mættust við þinghúsið í Washington-borg í fyrra.

Síðast voru ávítur samþykktar á hendur bandarísks fulltrúadeildarþingmanns árið 2010. Þá sætti Charles Rangel, þingmaður demókrata, ákúrum fyrir fjárglæfrar. Engar frekari afleiðingar fylgja því að vera ávíttur í þinginu aðrar en mögulegir álitshnekkir.

Marjorie Taylor Green, þingkona repúblikana frá Georgíu, var svipt nefndarstörfum fyrir að deila hatursorðræðu og ofbeldisfullum samsæriskenningum fyrr á þessu ári.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.