Íslenski boltinn

Keflavík endurheimtir Sindra frá ÍA

Sindri Sverrisson skrifar
Sindri Snær Magnússon er kominn aftur í Keflavíkurtreyjuna.
Sindri Snær Magnússon er kominn aftur í Keflavíkurtreyjuna. mynd/Keflavík

Keflavík hefur fengið góðan liðsstyrk en miðjumaðurinn Sindri Snær Magnússon hefur skrifað undir samning við félagið sem gildir út næstu þrjár leiktíðir.

Sindri snýr þar með aftur til Keflavíkur eftir að hafa leikið þar árin 2014 og 2015. Þessi 29 ára gamli leikmaður fór frá Keflavík til ÍBV en hefur leikið með ÍA síðustu þrjú ár.

„Sindri Snær kemur með dýrmæta reynslu inní liðið okkar sem er ungt og mun leika í deild þeirra bestu að ári. Mikils er vænst af Sindra Snæ sem mun styrkja liðið okkar mikið og viljum við bjóða hann hjartanlega velkominn aftur til Keflavíkur og hlökkum til að sjá hann á vellinum!“ segir í tilkynningu Keflvíkinga.

ÍA og Keflavík enduðu jöfn að stigum í 9. og 10. sæti Pepsi Max-deildarinnar í sumar, einu stigi frá fallsæti. Liðin mættust í undanúrslitum Mjólkurbikarsins þar sem Sindri og félagar fögnuðu sigri en þeir töpuðu svo gegn Víkingi í úrslitaleiknum.

Sindri er uppalinn hjá ÍR í Breiðholti og hafði jafnframt leikið með Breiðabliki og Selfossi áður en hann fór til Keflavíkur í fyrra skiptið, fyrir sumarið 2014.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.