Erlent

„Við römbum enn á barmi lofts­lags­ham­fara“

Eiður Þór Árnason skrifar
Antonio Guterres á COP26 í Glasgow.
Antonio Guterres á COP26 í Glasgow. AP/Alberto Pezzali

António Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, telur að pólitískan vilja hafi skort til að ryðja úr vegi djúpstæðum ágreiningi um viðbrögð þjóða við loftslagsvánni.

Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna COP26 lauk í kvöld þegar öll 197 aðildarríki Sameinuðu þjóðanna samþykktu lokayfirlýsingu ráðstefnunnar eftir þungar samningaviðræður. Ekki eru allir á eitt sáttir með niðurstöðuna og hafa margir gagnrýnt að yfirlýsingin gangi ekki nógu langt.

Guterres segir að COP26 hafi verið einstaklega erfið áskorun og að samkomulagið feli í sér málamiðlun sem endurspegli hagsmuni, þversagnir, ástand og pólitískan vilja í heiminum í dag.

„Stigin voru mikilvæg skref en því miður skorti pólitískan vilja til þess að sigrast á djúpstæðum þversögnum,“ segir hann í yfirlýsingu sinni sem greint er frá á vef Sameinuðu þjóðanna.

Tími til að búa sig undir neyðarástand

„Plánetan okkar er viðkvæm og hangir á bláþræði. Við römbum enn á barmi loftslagshamfara. Það er kominn tími til að búa sig undir neyðarástand, því ef ekki hverfa möguleikar okkar á að ná takmarkinu um nettó núll losun.“

Árangur hafi náðst á ýmsum sviðum eins og að binda enda á eyðingu skóga og draga úr losun metans.

„Þetta er lofsverð viðleitni en er ekki nóg,“ sagði Guterres.

Við ráðstefnulok sendi aðalframkvæmdarstjórinn hvatningu til ungs fólks, frumbyggja, kvenna og allra þeirra sem hafa verið í forystu loftslags-hersins.

„Ég veit að mörg ykkar eru vonsvikin. Árangur eða tap eru ekki bundin lögmálum heldur er þetta í okkar höndum,“ sagði Guterres. „Leiðin til framfara er ekki bein, stundum er vikið af leið.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×