Erlent

Birta nöfn þeirra sem létust á tón­leikum Tra­vis Scott

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Fólk leggur hér blóm á minnisvarða um þau sem létust á tónleikunum.
Fólk leggur hér blóm á minnisvarða um þau sem létust á tónleikunum. AP/Robert Bumsted

Yfirvöld í Houston í Texas hafa nú birt nöfn þeirra átta sem létust á tónleikum bandaríska rapparans Travis Scott í borginni um helgina. Mikið öngþveiti varð meðal tónleikagesta þegar rapparinn steig á svið, með þeim afleiðingum að átta létust og hundruð slösuðust, sum alvarlega.

Sá yngsti í hópi hinna látnu var hinn 14 ára John Hilgert. Samkvæmt breska ríkisútvarpinu var Hilgert nýnemi í gagnfræðaskóla í Houston. Samkvæmt bandarískum fjölmiðlum hafði Hilgert mætt snemma á tónleikana til þess að taka frá stað framarlega á tónleikunum fyrir sig og vini sína.

Næstyngst hinna látnu var Brianna Rodriguez, 16 ára. Hún var sömuleiðis í gagnfræðaskóla í Texas. Í kjölfar andláts hennar kom fjölskylda hennar á fót söfnunarsíðu fyrir útför hennar. Markið var sett á 30.000 dollara, eða um 3,9 milljónir. Þegar þetta er skrifað hefur safnast rúmlega tvöföld sú upphæð.

Tveir hinna látnu voru frá bænum Naperville í Illinois. Það voru þeir Jacob Jurinek, sem var tvítugur, og Franco Patiño, 21 árs. Sá fimmti sem lést var einnig 21 árs og hét Axel Acosta. Hann var frá smábænum Tieton í Washington-ríki. Fjölskylda Acosta er í hópi þeirra sem hefur höfðað mál á hendur rapparanum Scott og skipuleggjendum tónleikanna vegna þess sem gerðist.

Laganeminn Rudy Peña lést einnig á tónleikunum. Hann var frá Laredo í Texas og var 23 ára. Þar var námskonan Madison Dubiski frá Cypress í Texas einnig. Hún var á tónleikunum með bróður sínum, en þau urðu viðskila í mannhafinu.

Elstur þeirra sem lést var hinn 27 ára gamli Danish Baig. BBC hefur eftir bróður hans að Baig hafi látist þegar hann reyndi að forða eiginkonu sinni frá því að verða undir í troðningnum sem myndaðist á tónleikunum.

Líkt og áður sagði slösuðust hundruð manna á tónleikunum. Þeirra á meðal er níu ára drengur sem haldið er sofandi á gjörgæslu vegna alvarlegs heilaskaða sem hann beið.

Kallað eftir óháðri rannsókn

AP-fréttaveitan greinir frá því að sérfræðingar vestanhafs kalli nú eftir því að sjálfstæð rannsókn á tildrögum mannfallsins á tónleikunum verði gerð. Það er, að lögreglan í Houston muni ekki fara með rannsókn málsins.

Ástæðan er sú að lögreglan í Houston hafði það hlutverk að gæta að öryggi tónleikagesta. Því kunni lögregludeildin í raun að vera að rannsaka sjálfa sig, ráðist hún í rannsókn á því sem átti sér stað á tónleikunum.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.