Enski boltinn

Fá ekki að spila heimaleiki í varabúningum fyrir góðgerðarmál

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Félög í ensku úrvalsdeildinni fá ekki að leika heimaleiki sína á öðrum degi jóla í varabúningum.
Félög í ensku úrvalsdeildinni fá ekki að leika heimaleiki sína á öðrum degi jóla í varabúningum. Malcolm Couzens/Getty Images

Félög í ensku úrvalsdeildinni sem eiga að spila heimaleiki á öðrum degi jóla fá ekki að spila í varabúningum sínum fyrir góðgerðarsamtök sem berjast gegn heimilisleysi.

Enska úrvalsdeildin hefur hafnað beiðni þeirra níu liða sem spila heimaleiki á öðrum degi jóla um að fá að spila leikina í varabúningum sínum. Ónotaðar aðaltreyjur liðanna áttu þá að vera seldar á uppboði með eiginhandaráritunum leikmanna.

Þeir fjármunir sem myndu safnast af þessari treyjusölu áttu svo að renna til góðgerðafélagsins Shelter sem berst gegn heimilisleysi í Bretlandi.

Talsmaður ensku úrvalsdeildarinnar segir að deildinni berist mikið af beiðnum af þessu tagi, en geti því miður ekki styrkt þau öll.

„Ensku úrvalsdeildinni berast margar beiðnir frá góðgerðasamtökum á hverju tímabili, en við getum ekki styrkt þau öll. Félögin hafa fullan rétt á að styrkja góð málefni, svo lengi sem það fylgi reglum ensku úrvalsdeildarinnar.“

Þau lið sem leika heimaleiki á öðrum degi jóla eru Liverpool, Wolves, Burnley, Manchester City, Norwich, Tottenham, West Ham, Aston Villa og Brighton, en samkvæmt heimildum Sky Sports hafa forráðamenn EFL, sem samanstendur af fyrstu, annarri og þriðju deild Englands, ekkert á móti því að lið í þeim deildum taki þátt í verkefninu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×