Erlent

ESB segir Lúkasjenka haga sér eins og glæpamaður

Samúel Karl Ólason skrifar
Pólskir hermenn bæta girðingu milli landamæra Póllands og Hvíta-Rússlands.
Pólskir hermenn bæta girðingu milli landamæra Póllands og Hvíta-Rússlands. EPA/LEONID SCHEGLOV

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins segir Alexander Lúkasjenka, einræðisherra Hvíta-Rússlands, um að laða flótta- og farandfólk til landsins og nota það í pólitískum tilgangi. Hegðun hans sé ómannúðleg og glæpsamleg.

Rússar, bandamenn Lúkasjenka, leggja til að ESB greiði Hvítrússum peninga til að stöðva flæði fólks inn fyrir landamæri sambandsins.

Minnst tvö þúsund manns eru nú við landamæri Hvíta-Rússlands og Póllands en Pólverjar hafa kallað út fjölda hermanna til að verja landamærin.

Flæði flótta- og farandfólks frá Hvíta-Rússlandi til Póllands, Litháen og Lettlands hefur aukist til muna á undanförnum mánuðum. Að mestu er um unga menn að ræða en einnig eru konur og börn í hópunum, samkvæmt frétt BBC. Flestir eru frá Mið-Austurlöndum og Asíu.

ESB hefur áður sakað ríkisstjórn Lukasjenka um að nota flótta- og farandfólk sem vopn gegn Evrópu til að hefna fyrir refsiaðgerðir vegna mannréttindabrota ríkisstjórnar hans í Hvíta-Rússlandi.

Sjá einnig: Pólverjar saka Hvítrússa um að smala fólki að landamærunum

Fólkið hefur lýst því við fréttaritara BBC að hermenn hafi tekið af þeim símana og rekið þau að landamærunum. Hermenn eru einnig sagðir hafa skotið í loftið fyrir aftan þvöguna til að smala þeim áfram og ýta undir óþreyju.

Minnst tvö þúsund manns eru við landamærin. Að mestu eru um unga menn að ræða en í hópnum eru einnig konur og börn.EPA/LEONID SCHEGLOV

Einn viðmælandi miðilsins segir þau ekkert geta farið. Pólverjar komi í veg fyrir að þau fari áfram og Hvítrússar meini þeim að fara til baka.

BBC segir framkvæmdastjórnina vera að skoða mögulegar refsiaðgerðir gegn ríkjum sem hafa verið að fljúga flóttafólki til Hvíta-Rússlands. Þar á meðal séu Sýrland, Íran, Rússland og nokkur Afríkuríki.

Hér má sjá tíst blaðamanns Bild þar sem sjá má Kúrda frá Írak fara um borð í flugvél í Damascus í Sýrlandi, að virðist á leið til Hvíta-Rússlands.

Ráðamenn í Rússlandi hafa hrósað bandamönnum sínum í Hvíta-Rússlandi í hástert fyrir ábyrgð þeirra í tengslum við deilurnar. Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, lagði til í dag að Evrópusambandið greiddi Hvíta-Rússlandi peninga fyrir það að stöðva flæði flótta- og farandfólks til ESB.

Þetta sagði Lavrov á blaðamannafundi í Moskvu í dag, samkvæmt frétt Reuters, og vísaði hann til samkomulags ESB og Tyrklands frá árinu 2016. Þegar Tyrkir fengu greiðslur fyrir að stöðva flæði flótta- og farandfólks yfir Eyjahafið.

Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands, hefur lýst ástandinu sem „óhefðbundni árás“ frá Hvíta-Rússlandi. Hann segir það í hag þjóðaröryggis Póllands að loka landamærunum en segir öryggi Evrópusambandsins í húfi.

Morawiecki segir einnig að Pólverjar láti ekki ógna sér og Atlantshafsbandalagið og ESB standi við bakið á þeim.


Tengdar fréttir

Spennan milli Pól­lands og Evrópu­sam­bandsins magnast

Forsætisráðherra Póllands sagðist hafna miðstýringu Evrópusambandsins og sakaði það um að fara yfir öll valdmörk í ræðu sem hann flutti fyrir Evrópuþinginu í Strassbourg í morgun. Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins varaði hann við því að komið geti til aðgerða fallist pólsk stjórnvöld ekki á að fylgja Evrópulögum. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×