Erlent

Bólu­setning gegn HPV fækkar krabba­meinstil­vikum um nærri 90 prósent

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Mörg ríki skoða nú að bólusetja drengi gegn HPV en veiran smitast aðallega við kynmök.
Mörg ríki skoða nú að bólusetja drengi gegn HPV en veiran smitast aðallega við kynmök.

Bresk rannsókn bendir til þess að bólusetning gegn HPV-veirunni hafi fækkað tilfellum leghálskrabbameins um nærri 90 prósent. Veiran á þátt í nær öllum krabbameinum sem greinast í leghálsi.

Niðurstöður umræddrar rannsóknar voru birtar í vísindatímaritinu Lancet en til skoðunar var árangur HPV-bólusetningarinnar í Bretlandi, sem hófst árið 2008. Þar er stúlkum boðin bólusetningin á aldrinum 11 til 13 ára.

Þær konur sem voru fyrst bólusettar eru nú á þrítugsaldri en rannsóknin leiddi í ljós að meðal þeirra var tíðni leghálskrabbameins 87 prósent minni en áður þekktist og þá fækkaði þeim verulega sem greindust með forstigsbreytingar.

Rannsakendurnir segja að bólusetningarátakið hafi komið í veg fyrir 450 krabbameinstilvik og 17.200 tilfelli forstigsbreytinga. 

Þá benda þeir á að þar sem hópurinn sé enn ungur; venjulega greinist um 50 konur með leghálskrabbamein á ári í umræddum aldurshóp en í bólusetta hópnum hafi aðeins fimm greinst. Tölfræðin muni verða enn betri með tímanum.

Vonir standa til að í framtíðinni verði fyrirkomulag skimana þannig að konur sem hafa verið bólusettar sem börn þurfi aðeins að mæta í sýnatöku tvisvar til þrisvar á lífsleiðinni. Enn er því þó ósvarað hversu lengi bólusetningin dugar og hvort þörf er á örvunarskammti.

Þá eru til meira en hundrað tegundir af HPV-veirum en aðeins bólusett gegn þeim hættulegustu.

BBC greindi frá.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×