Erlent

Demó­kratinn hélt velli í New Jer­s­ey

Þorgils Jónsson skrifar
Phil Murphy var naumlega endurkjörinn ríkisstjóri New Jersey. 
Phil Murphy var naumlega endurkjörinn ríkisstjóri New Jersey.  Mark Makela/Getty Images

Demókratinn Philip Murphy mun sitja annað tímabil sem ríkisstjóri í New Jersey, en hann sigraði repúblikanann Jack Ciattarelli afar naumlega.

Kosningarnar fóru fram í gær, en svo mjótt var á munum að hann var ekki lýstur sigurvegari fyrr en í kvöld, þegar um 90% atkvæða höfðu verið talin. Þá munaði tæpum 20.000 atkvæðum milli frambjóðendanna, eða um 0,8%.

Demókratar geta því andað léttar, en flokksbróðir hans Terry McAuliffe tapaði ríkisstjórastólnum í Virginíuríki til repúblikanans Glenn Youngkin í gær.

Fyrirfram var búist við öruggum sigri Murphys, enda New Jersey jafnan hneigst að demókrötum, en strangar aðgerðir hans í Covid-faraldrinum öfluðu honum lítilla vinsælda. Auk þess þykir fylgistap Joe Bidens forseta sýna veika stöðu demókrata á landsvísu.

Niðurstaða kosninganna í gær ætti að hringja viðvörunarbjöllum fyrir demókrata í aðdraganda þingkosninga sem fara fram á næsta ári. Mun útkoman úr umbótalögum Bidens sem liggja nú fyrir þinginu sennilega ráða miklu þar um.

Eftir að tapið í Virginíu lá fyrir sagði Biden að ljóst væri að fólk sé ósátt og í óvissum en hann sór þó að halda sínu striki og berjast fyrir að koma stefnumálum sínum í gegnum þingið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×