Erlent

Að­stoðar­kona Clin­ton segir þing­mann hafa ráðist á sig

Kjartan Kjartansson skrifar
Huma Abedin (t.v.) með Hillary Clinton (t.h.) í kappræðum forsetaframbjóðendanna í október árið 2016.
Huma Abedin (t.v.) með Hillary Clinton (t.h.) í kappræðum forsetaframbjóðendanna í október árið 2016. Vísir/EPA

Huma Abedin, einn nánasti ráðgjafi Hillary Clinton, lýsir því hvernig öldungadeildarþingmaður réðst á hana kynferðislega í endurminningum sínum. Atvikið hafi átt sér stað þegar Clinton var í öldungadeildinni á fyrsta áratug þessarar aldar.

Abedin nafngreinir hvorki þingmanninn né segir hvaða flokki hann tilheyrir í bókinni, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Hún segir þingmanninn hafa boðið sér inn til sín þegar þau gengu samferða eftir kvöldverð. Hann hafi síðan reynt að kysssa hana af krafti.

„Ég var svo algerlega slegin, ég ýtti honum af mér. Það eina sem ég vildi var að eyða út síðustu tíu sekúndunum,“ segir Abedin í bókinni sem verður gefin út í næstu viku.

Þingmaðurinn hafi beðist afsökunar og borið því við að hann hefði „misskilið“ hana. Hann hafi boðið henni að vera um kyrrt en hún hafi afsakað sig og komið sér út. Þegar Abedin rakst á hann í þinginu nokkrum dögum síðar hafi hann spurt hana hvort þau væru ekki ennþá vinir.

Örlagaríkir tölvupóstar úr rannsókn á eiginmanni Abedin

Abedin og fyrrverandi eiginmaður hennar, Anthony Wiener, voru miklir örlagavaldar í forsetaframboði Clinton árið 2016. Wiener rústaði ferli sínum í fulltrúadeild Bandaríkjaþings með ítrekuðum kynlífshneykslismálum.

Rannsókn alríkislögreglu á kynferðislegum samskiptum Wiener við fimmtán ára gamla stúlku skaut upp kollinum á lokametrum kosningabaráttu Clinton og Donalds Trump, frambjóðanda Repúblikanaflokksins.

Alríkislögreglan FBI hafði áður rannsakað notkun Clinton á einkatölvupóstþjóni þegar hún var utanríkisráðherra. Þeirri rannsókn var lokið án þess að Clinton sætti ákæru. Innan við tveimur vikum fyrir kjördag tilkynnti James Comey, forstjóri FBI, að tölvupóstrannsóknin hefði verið opnuð aftur eftir að tölvupóstar frá Clinton og Abedin fundust á tölvu Wiener.

Ekkert frekar fannst í þeim tölvupóstum. Stjórnmálaspekingar og Clinton sjálf hafa kennt inngripi Comey um það að hún tapaði fyrir Trump í kosningunum. Trump rak Comey aðeins nokkrum mánuðum eftir að hann tók við embætti forseta.


Tengdar fréttir

Weiner játar að hafa sent táningi óviðeigandi myndir

Anthony Weiner, fyrrverandi þingmaður demókrata og eiginmaður eins helsta ráðgjafa Hillary Clinton í forsetakosningunum í Bandaríkjunum, mun játa sök í enn einu kynlífshneykslismálinu sem tengist honum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.