Erlent

Greindi frá því í beinni að hann væri með MS

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
John King er ein helsta stjarna CNN.
John King er ein helsta stjarna CNN. Ethan Miller/Getty Images)

John King, einn af helstu fréttaþulum bandarísku sjónvarpstöðvarinnar CNN, greindi frá því í dag í miðjum umræðuþætti hans á sjónvarpstöðinni að hann væri með taugasjúkdóminn MS. Hann segist vera þakklátur fyrir það að samstarfsfélagar hans séu bólusettir gegn Covid-19.

King hefur vakið gríðarlega athygli í kringum kosningar í Bandaríkjunum, ekki síst í síðustu forsetakosningum þar í landi þar sem hann var tímunum saman á skjánum að greina stöðuna fyrir framan Töfravegginn svokallaða, sem sýndi stöðuna í kosningunum í rauntíma eftir ríkjum og sýslum í Bandaríkjunum.

„Ég ætla að segja ykkur leyndarmál sem ég hef aldrei greint frá áður,“ sagði King. „Ég er með MS. Ég er þakklátur fyrir að þið eruð bólusett.“

Þeir sem eru með MS eru flestir á ónæmisbælandi lyfjum og flokkast þeir því í áhættuhóp vegna Covid-19 Hvatti King sem flesta til að láta bólusetja sig, ekki bara til þess að verja sig fyrir Covid-19, heldur einnig til þess að vernda aðra sem eiga á að hættu að þola það illa að sýkjast af Covid-19, líkt og King sjálfur.

King sagði frá sjúkdómsgreiningunni í miðjum umræðum um andlát Colin Powell, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem lést í vikunni vegna fylgikvilla Covid-19. Powell var 84 ára gamall og fullbólusettur. Powell var með krabbamein sem veikti ónæmiskerfi hans.

„Ég er ekki hrifinn af því að ríkisstjórnin segi mér hvað ég á að gera. Ég er ekki hrifinn af því þegar yfirmenn mínir gera það. En í þessu tilviki er það mikilvægt.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×