Erlent

Reyna að semja við Al­þjóða­gjald­eyris­sjóðinn um björgunar­að­gerðir

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Najib Mikati forsætisráðherra Líbanon segist ekki ætla að skipta sér af rannsókn á sprengingunni í Beirút fyrr en samkomulag hafi náðst við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um björgunarpakka vegna verstu kreppu síðari tíma.
Najib Mikati forsætisráðherra Líbanon segist ekki ætla að skipta sér af rannsókn á sprengingunni í Beirút fyrr en samkomulag hafi náðst við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um björgunarpakka vegna verstu kreppu síðari tíma. EPA-EFE/NABIL MOUNZER

Líbanska þingið samþykkti í dag að boða til þingkosninga 27. mars næstkomandi, sem gefur ríkisstjórn Najib Mikati forsætisráðherra aðeins nokkra mánuði til að koma á samkomulagi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um fjárhagsaðstoð vegna kreppunnar sem skekur nú landið. 

Erfitt ástand hefur ríkt í Líbanon undanfarin misseri bæði vegna fjármálakreppunnar, sem Alþjóðabankinn segir þá verstu í nútímasögunni,  og vegna stjórnmálakreppunnar sem ríkt hefur. Bráðabirðgastjórn hafði verið við stjórnvölinn í meira en ár og stjórnmálakreppa ríkt þar til Mikati tókst að mynda ríkisstjórn með hjálp Michels Aoun forseta. 

Líbanski gjaldmiðillinn hefur frá árinu 2019 fallið um 90 prósent í virði og rúm 70 prósent þjóðarinnar sögð búa við fátækt. Þá hefur mikill vöruskortur leikið landið grátt og eldsneytisskortur og lyfjaskortur gert landsmönnum lífið leitt.

Mikati hefur frá upphafi forsætisráðherratíðar sinnar lofað því að halda þingkosningar á réttum tíma, sem alþjóðasamfélagið hefur hvatt til. Ríkisstjórn hans berst nú við að komast að samkomulagi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um björgunarpakka. 

Þá hefur rannsókn á sprengingunni sem varð í Beirút í fyrra gert ríkisstjórninni erfitt fyrir. Miklar deilur hafa skapast vegna rannsóknarinnar en hún hefur verið stöðvuð nokkrum sinnum vegna kvartana fyrrverandi ráðherra og háttsettra stjórnmálamanna, sem hafa verið skaðir um að hafa hundsað viðvörunarbjöllur um vöruhúsið, sem sprakk, ítrekað.

Stjórnmálamenn úr sömu flokkum og þeir sem hafa verið til rannsóknar hafa þá krafið ríkisstjórnina um að skipta Tarek Bitar, dómara og aðalrannsóknarmanninum, út fyrir annan. Síðan þær kröfur voru settar fram hefur Mikati tilkynnt að ríkisstjórnin muni ekki funda um málið fyrr en hún hafi komist að samkomulagi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um björgunarpakka.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×