Erlent

Tugir þúsunda sagðir hafa fengið rangar niðurstöður úr skimun

Samúel Karl Ólason skrifar
Heilbrigðisyfirvöld segja að ekki sé vitað um galla á prófunum. Um einangrað atvik sé að ræða og fólk eigi enn að treysta skimunarniðurstöðum.
Heilbrigðisyfirvöld segja að ekki sé vitað um galla á prófunum. Um einangrað atvik sé að ræða og fólk eigi enn að treysta skimunarniðurstöðum. EPA/NEIL HALL

Búið er að loka skimunarstöð í Bretlandi vegna þess að fjöldi fólks fékk ranga niðurstöðu úr Covid-skimun. Áætlað er að prófum sem tekin voru hafi rangar niðurstöður verið gefnar í 43 þúsund tilvikum.

Rannsóknarstofan er rekin af einkaaðilum en fékk milljónir punda í styrki frá ríkinu. Mistökin gætu hafa valdið því að þúsundir manna með Covid-19 hættu of snemma í sóttkví og gætu hafa smitað aðra.

Rannsókn var hafin eftir að fólk kvartaði yfir því að fá neikvæða niðurstöðu frá rannsóknarstofunni en jákvæða úr hraðaprófum sem það tók sjálft. Verið er að skoða sýni sem tekin voru frá 8. september til 12. október, samkvæmt frétt BBC. Um er að ræða um það bil 400 þúsund sýni sem voru tekin á tímabilinu.

Verið er að senda öll sýni á rannsóknarstofunni til annarra.

Andrea Riposati, yfirmaður Immensa Health Clinic Ltd, segir starfsmenn vinna náið með yfirvöldum við rannsóknina.

Heilbrigðisyfirvöld segja að ekki sé vitað um galla á prófunum. Um einangrað atvik sé að ræða og fólk eigi enn að treysta skimunarniðurstöðum. Samkvæmt Sky News er verið að hafa samband við þau sem hafa fengið rangar niðurstöður og biðja þau um að fara aftur í skimun.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.