Enski boltinn

Naut þess ekkert að eyðileggja draum Gerrards

Sindri Sverrisson skrifar
Steven Gerrard rann til í grasinu og eftirleikurinn var auðveldur fyrir Demba Ba.
Steven Gerrard rann til í grasinu og eftirleikurinn var auðveldur fyrir Demba Ba.

Demba Ba segist ekki hafa verið með það í huga að „eyðileggja draum Liverpool“ þegar hann skoraði markið sem leiddi til þess að Englandsmeistaratitillinn rann Liverpool úr greipum árið 2014.

Ba nýtti sér það þegar Steven Gerrard rann til á Anfield, í apríl 2014, og komst óáreittur að marki Liverpool og skoraði. Chelsea vann svo leikinn 2-0 en Liverpool þurfti aðeins jafntefli og sigur úr síðustu tveimur leikjum sínum til að vinna titilinn. Þá hafði Liverpool ekki orðið Englandsmeistari síðan 1990 en langri bið félagsins lauk svo í fyrra.

Engu að síður eru mistök Gerrards mörgum enn í fersku minni og Ba segir það leitt að minningin um þau varpi dálitlum skugga á þá knattspyrnugoðsögn sem Gerrard sé.

Steven Gerrard og Demba Ba kljást í leiknum örlagaríka vorið 2014.EPA/PETER POWELL

„Ég áttaði mig ekki á því hvað þetta var mikið mál fyrr en nokkrum árum seinna þegar fólk var enn að tala um þetta. Það er enn talað um þetta! Þetta var mikið áfall fyrir þá. Við nutum þess ekkert að eyðileggja drauminn þeirra. Við nutum þess bara að vinna,“ sagði Ba í ítarlegu viðtali við The Athletic.

„Menn gera mistök og aðrir nýta sér þau. Það er stórkostlegt hvað Steven Gerrard hefur gert fyrir fótboltaheiminn. En svona er lífið, því miður. Það enda ekki allar sögur eins og ævintýri,“ sagði Ba.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×