Íslenski boltinn

Her­mann ráðinn þjálfari upp­eldis­fé­lagsins

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hermann og fjölskylda hans munu flytjast til Vestmannaeyja.
Hermann og fjölskylda hans munu flytjast til Vestmannaeyja. ÍBV Sport

Hermann Hreiðarsson hefur verið ráðinn þjálfari ÍBV sem mun leika í Pepsi Max deild karla í fótbolta næsta sumarið. Hann skrifar undir þriggja ára samning við uppeldisfélagið.

Þetta kemur fram á vefnum ÍBV Sport. Þar segir að „miklar væntingar séu bundnar við ráðningu hans.“ 

„Til gamans má geta að Hemmi flytur með fjölskylduna til Eyja í upphafi næsta árs og er mikil tilhlökkun hjá öllum fyrir þessu samstarfi. Velkominn heim Hemmi og áfram ÍBV, alltaf, alls staðar,“ segir einnig í tilkynningu ÍBV.

ÍBV mun leika í efstu deild á næstu leiktíð eftir að hafa endað í 2. sæti Lengjudeildarinnar í sumar. Helgi Sigurðsson stýrði liðinu upp um deild en ákvað að halda ekki áfram sem þjálfari liðsins.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Hermann stýrir ÍBV en hann var spilandi þjálfari árið 2013. Þá hefur hann stýrt Fylki, karla og kvenna, sem og hann var aðstoðarþjálfari Kerala Blasters og Southend United áður en hann tók við Þrótti Vogum sumarið 2020.

Stýrði hann Þrótti í sumar og vann liðið 2. deildina undir hans stjórn. Þá er ekki langt síðan hann var ráðinn aðstoðarþjálfari U-21 árs landsliðs karla.


Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×