Íslenski boltinn

Blikar fá tvær nýjar í Meistaradeildina

Sindri Sverrisson skrifar
Karen María Sigurgeirsdóttir handsalar samning við Sigurð Hlíðar Rúnarsson, deildarstjóra knattspyrnudeildar Breiðabliks.
Karen María Sigurgeirsdóttir handsalar samning við Sigurð Hlíðar Rúnarsson, deildarstjóra knattspyrnudeildar Breiðabliks. Facebook/@fotbolti

Breiðablik hefur bætt við sig tveimur leikmönnum fyrir komandi stórleiki í Meistaradeild Evrópu í fótbolta. Félagið nýtti undanþáguheimildir til félagaskipta enda félagaskiptaglugginn lokaður á Íslandi.

Leikmannahópur Breiðabliks var heldur þunnskipaður þegar liðið tryggði sér sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar með því að slá út Osijek frá Króatíu. Aðeins þrír varamenn voru á varamannabekk Blika þegar liðið vann seinni leikinn 3-0 fyrir þremur vikum.

Þar sem lokað er fyrir félagaskipti á Íslandi frá ágúst og fram í janúar voru góð ráð dýr fyrir Breiðablik, nú þegar von er á stórliðum PSG og Real Madrid til landsins.

Breiðablik náði engu að síður að bæta við sig tveimur leikmönnum. Önnur er Karen María Sigurgeirsdóttir sem kemur frá Þór/KA og hin er hin bandaríska/belgíska Alexandra Soree.

Karen María fær félagaskipti því samkvæmt reglum FIFA er heimilt að skrá leikmenn utan „glugga“ til að leysa af tímabundið leikmann sem er í fæðingarorlofi. Þannig gátu Blikar skráð Karen í stað Rakelar Hönnudóttur. Í tilkynningu þakkar Breiðablik Þór/KA fyrir fagleg vinnubrögð og velvilja en ljóst er að Karen María hefði ekki fengið leikheimild nema vegna velvilja Akureyringa.

Karen María verður því til taks þegar Blikar taka á móti PSG næsta miðvikudag, en opið er fyrir skráningu nýrra leikmanna í Meistaradeildinni þar til á morgun. Hún má hins vegar ekki spila bikarúrslitaleikinn gegn Þrótti á föstudaginn.

Breiðablik á fyrir höndum stórleiki við PSG og Real Madrid í haust og vetur.vísir/Hulda Margrét

Karen María er tvítug og kemur frá uppeldisfélagi sínu Þór/KA, þar sem hún hefur verið í stóru hlutverki síðustu ár. Hún spilaði alla deildarleiki liðsins á nýafstöðnu tímabili og skoraði fimm mörk. Karen María á að baki þrettán leiki með yngri landsliðum Íslands og var fyrr á árinu valin í æfingahóp A-landsliðsins.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.