Íslenski boltinn

Vilhjálmur segir að Birnir hafi búið til snertinguna og gerst sekur um óíþróttamannslega framkomu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Vilhjálmur Alvar Þórarinsson ræddi við Gunnlaug Jónsson eftir leikinn í Kórnum.
Vilhjálmur Alvar Þórarinsson ræddi við Gunnlaug Jónsson eftir leikinn í Kórnum. stöð 2 sport

Vilhjálmur Alvar Þórarinsson segist hafa tekið rétta ákvörðun þegar hann gaf Birni Snæ Ingasyni sitt annað gula spjald fyrir leikaraskap í leik HK og Stjörnunnar í Pepsi Max-deild karla í gær.

Á 71. mínútu fékk Birnir gult spjald fyrir brot á Emil Atlasyni. Fjórum mínútum síðar féll hann í vítateig Stjörnunnar og Vilhjálmur Alvar spjaldaði hann fyrir leikaraskap. Hann ræddi dóminn í viðtali við Gunnlaug Jónsson eftir leik.

„Við vorum að dæma hörku leik milli tveggja góðra fótboltaliða. Okkar markmið var að leyfa leiknum að fljóta eins og við gátum og ég tel okkur hafa náð því í dag og lögðum okkar að mörkum að gera þetta að skemmtilegum leik,“ sagði Vilhjálmur.

Hann segist hafa gefið Birni fyrra gula spjaldið fyrir að stöðva skyndisókn Stjörnunnar.

„Þarna brýtur Birni af sér, á Emil. Þetta er ekki gróft brot en ástæðan fyrir því að hann fær spjald er að hann er að stöðva vænlegt upphlaup hjá Stjörnumönnum. Emil er með mikið pláss til að sækja á. Ég er sáttur með þessa ákvörðun,“ sagði Vilhjálmur.

Klippa: Pepsi Max stúkan - Viðtal við Vilhjálm Alvar

Hann sagði að Birnir hefði gerst sekur um óíþróttamannslega framkomu þegar hann lét sig detta í vítateignum fjórum mínútum síðan.

„Í þessu atviki var ég mjög vel staðsettur. Ég stóð beint fyrir aftan það sem gerðist. Það er vissulega snerting milli leikmanns HK og leikmanns Stjörnunnar en í þessu atviki er það HK-maðurinn sem býr til snertingu og fyrir mér gerist hann sekur um óíþróttamannslega framkomu og þess vegna dæmi ég óbeina aukaspyrnu og honum gult spjald,“ sagði Vilhjálmur.

Fjórum mínútum eftir að hann rak Birni af velli skoraði Valgeir Valgeirsson eina mark leiksins. Stjörnumenn vildu fá aukaspyrnu í aðdraganda marksins þegar Óli Valur Ómarsson féll í baráttu við Stefan Alexander Ljubicic.

„HK-ingurinn er að hlaupa meðfram Stjörnumanninum og setur pressu á hann. Hann kemur vissulega aðeins við hann með vinstri höndinni en hann fellir hann ekki eða neitt,“ sagði Vilhjálmur en viðtalið við hann má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.

Með sigrinum komust HK-ingar upp úr fallsæti. HK mætir Breiðabliki í lokaumferðinni á laugardaginn og verður þar án Birnis og Ívars Arnar Jónssonar sem taka út leikbann.


Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.