Enski boltinn

Totten­ham vann Man City | María skoraði fyrir Man Utd

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
María Þórisdóttir fagnar marki sínu í dag.
María Þórisdóttir fagnar marki sínu í dag. Matthew Ashton/Getty Images

María Þórisdóttir skoraði í 3-1 sigri Manchester United á Leicester City í ensku Ofurdeild kvenna í dag. Arsenal vann 4-0 sigur á Reading og Manchester City tapaði óvænt fyrir Tottenham Hotspur.

María byrjaði á bekknum hjá Manchester United í dag en kom inn eftir aðeins stundarfjórðung þegar Millie Turner meiddist. Eftir rúman hálftíma skoraði Ella Ann Toone og var staðan 1-0 gestunum frá Manchester í vil í hálfleik.

María skoraði svo annað mark Man Utd aðeins tveimur mínútum eftir að síðari hálfleikur hófst. Heimastúlkur minnkuðu muninn í 2-1 áður en hin skoska Martha Thomas gulltryggði 3-1 sigur Man United.

Lauren Hemp kom Manchester City yfir snemma leiks gegn Tottenham og var staðan 1-0 allt þangað til Rachel Williams jafnaði metin eftir rúma klukkustund. Þegar fjórar mínútur lifðu leiks varð svo Karima Benameur, markvörður Man City, fyrir því óláni að skora sjálfsmark og lokatölur því 2-1 Tottenham í vil.

Hin hollenska Vivianne Miedema skoraði tvö mörk í 4-0 sigri Arsenal á Reading. Bethany Mead og Jennifer Beattie skoruðu hin tvö mörk liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×