Íslenski boltinn

Orri Freyr hættur með Þór | Ekki skorað í sjö leikjum í röð

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Orri Freyr er hættur með Þór.
Orri Freyr er hættur með Þór. Thorsport.is

Orri Freyr Hjaltalín hefur sagt starfi sínu lausu sem þjálfari Þórs Akureyrar í Lengjudeild karla í fótbolta. Þórsarar eru ekki enn sloppnir við falldrauginn þegar tvær umferðir eru eftir og þá hefur liðið ekki skorað í átta leikjum í röð.

Fyrir sumarið ætluðu Þórsarar sér stóra hluti en allt hefur gengið á afturfótunum hjá félaginu í sumar. Orri Freyr skrifaði undir þriggja ára samning við félagið í nóvember á síðasta ári og var markmiðið að reyna koma Þórsurum upp í deild þeirra bestu á þeim tíma.

Nú, rétt rúmum tíu mánuðum síðar er liðið nær því að falla niður í 2. deild heldur en að vinna sér inn sæti í efstu deild.

Þór hefur ekki skorað mark síðan liðið skoraði fjögur í 4-2 sigri á Gróttu þann 23. júlí síðastliðinn. Síðan þá hefur liðið tapað sex af sjö leikjum, þar á meðal gegn botnliði Víkings Ólafsvíkur. Eina stigið kom eftir markalaust jafntefli gegn Fjölni.

Orri Freyr ákvað því að segja starfi sínu lausu og munu aðstoðarmenn hans – þeir Sveinn Elías Jónsson og Jón Stefán Jónsson – stýra liðinu í þeim tveimur leikjum sem eftir eru. Þetta kemur fram í yfirlýsingu Þórs.

Þór á eins og áður sagði tvo leiki eftir. Selfyssingar koma í heimsókn í Þorpið þann 11. september og viku síðar halda Þórsarar í Laugardalinn þar sem þeir mæta Þrótti Reykjavík. Sem stendur eiga Þróttarar enn möguleika á að halda sæti sínu í deildinni og senda Þór niður í 2. deild.

Þór Akureyri er í 10. sæti með 20 stig og -4 í markatölu á meðan Þróttur R. er með 14 stig og -12 í markatölu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×