Erlent

Óska eftir kæli­bílum til að anna um­fram­eftir­spurn hjá út­farar­stofum og lík­húsum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Heilbrigðiskerfið í Oregon er komið að þolmörkum.
Heilbrigðiskerfið í Oregon er komið að þolmörkum. AP/KDRV/Mike Zacchino

Yfirvöld í tveimur sýslum í Oregon í Bandaríkjunum hafa óskað eftir flutningabifreiðum með kæligeymslum til að höndla þann fjölda líka sem nú safnast upp á sjúkrahúsum, útfararstofum og líkbrennslum.

Um er að ræða Josephine-sýslu, þar sem útfararstofurnar fimm og líkbrennslurnar þrjár anna ekki eftirspurn, og Tillamook-sýslu, þar sem aðeins ein útfararstofa er starfrækt.

Spítalar í Oregon ná almennt varla að anna þeim sjúklingum sem þarfnast aðhlynningar sökum Covid-19 en fleiri liggja nú inni en nokkru sinni áður í faraldrinum. Delta fer eins og eldur í sinu og víða er aðeins um helmingur íbúa fullbólusettur.

Yfirvöld í Tillamook-sýslu sögðu í yfirlýsingu að fleiri hefðu greinst með Covid-19 á síðustu tveimur vikum en á undanförnum tíu mánuðum. Um það bil 26 þúsund manns búa í sýslunni, þar sem sex hafa látist af völdum Covid-19 á síðustu sex dögum.

Tilfellum í Oregon hefur fjölgað um samtals 33 prósent síðustu tvær vikur og dauðsföllum um 48 prósent. Þá hefur innlögnum fjölgað um 126 prósent. Flestir þeirra sem leggjast inn eru óbólusettir.

Grímuskylda hefur aftur verið komið á og valkvæðum aðgerðum verið frestað. Sérfræðingar segja það þó ekki munu duga til og að fleiri þurfi að láta bólusetja sig. Um sé að ræða kapphlaup við tímann, ekki síst hvað varðar möguleikan á frekari stökkbreytingu SARS-CoV-2.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×