Íslenski boltinn

Stífar auka­æfingar þar sem Gummi Ben sýndi snilli sína skiluðu Höskuldi einu af mörkum sumarsins

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, skoraði glæsilegt mark gegn Fylki.
Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, skoraði glæsilegt mark gegn Fylki. Vísir/Hulda Margrét

Breiðablik gjörsamlega kaffærði Fylki í leik liðanna í Pepsi Max deild karla í gær. Lokatölur 7-0 þar sem Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Blika, skoraði einkar glæsilegt mark. Það ásamt öllum sóknarleik liðsins var til umræðu í Stúkunni að leik loknum.

„Blikarnir riðu bara á vaðið, voru frábærir og ótrúlega léttleikandi. Spiluðu þennan sóknarleik, það var dásamlegt að horfa á það. Það sem er skemmtilegt við liðið er hvað það eru margir sem taka þátt í sóknaraðgerðunum hjá þeim,“ sagði Margrét Lára Viðarsdóttir er myndir rúlluðu af glæsimarki Höskuldar Gunnlaugssonar.

„Þessi er að byrja marga leiki í hægri bakverði,“ skaut Guðmundur Benediktsson inn í.

„Markaskorun dreifist. Árni (Vilhjálmsson) er búinn að vera frábær, Höskuldur líka. Jason Daði (Svanþórsson), allir í sóknarleik Breiðabliks eru virkir. Bæði í markaskorun, að leggja upp og það er erfitt við þá að eiga þegar þeir eru í þessum ham. Fylkir var reyndar ekkert að reyna mæta þeim svo þeir fengu að vaða uppi og spila sinn frábæra leik sem þeir eru þekktir fyrir,“ sagði Margrét Lára einnig.

Í kjölfarið var sýnt frá viðtali við Höskuld að leik loknum þar sem hann fór yfir glæsimark sitt. Þakkaði hann Guðmundi, sínum fyrrum þjálfara vel og innilega fyrir.

„Þetta var bara einhver tilfinning, ætlaði að snerta hann fyrst en svo lá hann svona helvíti vel fyrir manni. Þá rifjaði maður upp gamlar „volley“ æfingar sem Gummi Ben lét mann – eða niðurlægði mann eiginlega í – með því að sýna sjálfur. Ætli ég verði ekki að þakka Gumma fyrir þetta,“ sagði Höskuldur að endingu.

Þetta frábæra mark og stórskemmtilega viðtal má sjá hér að neðan.

Klippa: Þakkaði Gumma Ben fyrir

Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir

„Ég þakka Gumma Ben fyrir þetta“

Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, átti frábæran leik í 0-7 sigrinum á Fylki í Árbænum í kvöld. Höskuldur skoraði tvö mörk en seinna mark Höskulds var afar glæsilegt.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.