Enski boltinn

„Þurfum að líta í spegil“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Aubameyang og félagar í Arsenal þurfa að taka sig á að hans sögn.
Aubameyang og félagar í Arsenal þurfa að taka sig á að hans sögn. Robbie Jay Barratt - AMA/Getty Images

Pierre-Emerick Aubameyang, fyrirliði Arsenal, segir leikmenn liðsins þurfa að fara í naflaskoðun eftir 5-0 tap fyrir Manchester City í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Arsenal hefur ekki skorað mark á leiktíðinni og er á botni deildarinnar án stiga.

Arsenal sá aldrei til sólar gegn Manchester City í dag þar sem liðið lenti 2-0 undir þegar minna en stundarfjórðungur var liðinn af leiknum. Granit Xhaka fékk þá rautt spjald í fyrri hálfleiknum áður en City bætti þremur mörkum við og vann öruggan 5-0 sigur á Arsenal-liði sem átti ekkert skot á mark í leiknum og var aðeins 19% með boltann.

„Það þarf að taka áhættur og vera hugrakkur með boltann, sem við gerðum ekki í dag,“ sagði Aubameyang eftir leik. „Eftir rauða spjaldið var þetta allt annar leikur, en eins og ég segi, þetta er ekki nóg og allir þurfa að stíga upp, við þurfum að líta í spegil, vinna úr þessu sem lið og standa saman. Það er eina leiðin fram á við.“

„Ég held að við þurfum að eiga samtal, leikmennirnir, okkar á milli. Ég held að það sé mikilvægt því við erum Arsenal og við þurfum stolt. Við þurfum að ræða málin hreinskilnislega og hækka ránna,“ sagði Aubameyang.

Fyrir leik dagsins hafði Arsenal tapað 2-0 fyrir bæði Brentford og Chelsea í deildinni. Liðið hefur því enn ekki skorað mark og er stigalaust á botni deildarinnar með markatöluna 0-9.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×