Umfjöllun og viðtöl: ÍA - KR 0-2 | Skagamenn að renna út á tíma í fallbaráttunni

Sverrir Mar Smárason skrifar
KR-ingar eru í fjórða sæti Pepsi Max deildarinnar eftir sigur kvöldins.
KR-ingar eru í fjórða sæti Pepsi Max deildarinnar eftir sigur kvöldins. Vísir/Hulda Margrét

Skagamenn fengu KR í heimsókn á Akranes í Pepsi-Max deild karla. Skagamenn að róa lífróður á botni deildarinnar en KR-ingar að gæla við baráttu um sæti í Evrópukeppni á næsta ári eftir góðan 2-0 útisigur.

Leikurinn fór hratt af stað. KR-ingar sóttu mikið að marki Skagamanna með vindinn í bakið og áttu nokkuð margar marktilraunir áður en fyrra mark leiksins kom á 15.mínútu. Stefán Árni lék þá á Alex Davey, varnarmann ÍA, hægra megin í teignum og sendi boltann fyrir markið á Kjartan Henrý sem lagði boltann í netið. Skagamenn voru ósáttir og töldu Kjartan hafa hrint í bakið á Guðmundi Tyrfingssyni í aðdraganda marksins en Einar Ingi, dómari leiksins, dæmdi ekkert og markið stóð.

Áfram héldu KR-ingar að sækja en marktilraunirnar voru þó aðallega skot af löngu færi. Eftir hálftíma leik fengu KR-ingar aukaspyrnu rétt fyrir utan teig Skagamanna. Kennie Chopart reyndi skot og fór það í þverslánna og niður. Leikmenn KR vildu meina að boltinn hafi skoppað fyrir innan línuna en dómaratríóið taldi svo ekki vera.

Í lok fyrri hálfleiks fengu Skagamenn svo sín tvö bestu færi í kvöld. Í bæði skiptin var það Viktor Jónsson sem var nálægt því að skora, fyrst eftir fyrirgjöf frá Gísla Laxdal þar sem Viktor rétt missti af boltanum fyrir framan opið mark og síðan eftir aukaspyrnu frá Gísla þar sem Viktor náði að taka boltann niður og reyndi skot sem fór rétt framhjá markinu. Hálfleikstölur 0-1 fyrir KR.

Skagamenn komu grimmir út í síðari hálfleik en KR liðið slökkti í þeim neista strax á 50.mínútu. Óskar Örn vann þá boltann af Skagamönnum og sendi fram á Kjartan Henrý. Kjartan átti góðan sprett í átt að vítateig ÍA áður en hann reyndi sendingu fyrir markið á Stefán Árna Geirsson. Guðmundur Tyrfingsson, sem spilaði í hægri bakverði í liði ÍA í kvöld, reyndi að stöðva sendinguna en gekk ekki betur en að boltinn fór af honum og framhjá Árna Marinó í marki Skagamanna. KR komnir í 2-0.

Það sem eftir lifði leiks reyndu bæði lið að skapa sér marktækifæri. KR meira með boltann en Skagamenn oft hættulegri fram á við. Mikil barátta var á miðjum vellinum. Einar Ingi, dómari leiksins, þurfti ansi oft að blása í flautu sína og oft nýttu KR-ingar tímann og hægðu á leiknum. Leikurinn fjaraði út á endanum og KR liðið fer heim í Vesturbæinn með þrjú stig í pokanum, komnir upp í 4.sæti deildarinnar eftir úrslit kvöldsins. Útlitið versnar hins vegar aðeins fyrir Skagamenn sem sitja áfram í neðsta sæti, fjórum stigum frá öruggu sæti.

Af hverju vann KR?

Þeir mættu Skagamönnum í baráttunni, voru yfirvegaðir með boltann og refsuðu þegar færi gafst. KR-ingar voru þolinmóðir gegn þéttu varnaliði ÍA og skynsamir í eigin varnarleik.

Hverjir stóðu upp úr?

Stefán Árni Geirsson var ansi öflugur í sóknarleik KR-inga í kvöld. Ógnaði í flest skipti sem hann fékk boltann og átti frábæra stoðsendingu í fyrra marki KR.

Arnór Sveinn Aðalsteinsson var einnig mjög góður í vörn KR í kvöld. Pottþéttur og öruggur í sínum aðgerðum.

Hvað hefði mátt betur fara?

Skagamönnum gekk erfiðlega að láta boltann ganga og að opna vörn KR til þess að skapa sér ákjósanleg marktækifæri. Þá voru þeir einnig óheppnir og jafnvel klaufar í mörkunum sem KR skora.

Hvað gerist næst?

Skagamenn fara norður á Greifavöllinn og spila við KA sunnudaginn 29.ágúst.

KR mætir Leikni á heimavelli þann sama dag.

Jóhannes Karl: Við erum ekkert að fara að gefast upp, það er nóg af stigum eftir

Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, var svekktur í leikslok.Vísir/Bára Dröfn

Jóhannes Karl, þjálfari ÍA, var svekktur í leikslok, en segir þó vera batamerki á leik liðsins.

„Já það var svekkjandi að lenda undir þarna í fyrri hálfleiknum, KR-ingarnir gera það ágætlega og byrja leikinn þokkalega vel en mér fannst jafnræði með liðunum stóran hluta fyrri hálfleiks. Mér fannst Kjartan vera klókur í markinu, finnst hann klárlega ýta Gumma Tyrfings í burtu áður en hann setur boltann í netið en dómari leiksins sá það ekki og því miður vorum við 1-0 undir og það er erfitt. KR-ingarnir eru erfiðar að eiga við og tala nú ekki um að þeir eru góðir að verja forystu,“ sagði Jóhannes.

Skagamenn sitja áfram á botni deildarinnar eftir leikinn. Þeir eiga fjóra leiki eftir og það eru fjögur stig upp í öruggt sæti. Jóhannes er brattur fyrir framhaldinu.

„Bara hörku barátta framundan. Við þurfum að gera betur og þurfum að vera aðeins þroskaðari í okkar leik. Það eru batamerki sem ég sé og sérstaklega í varnarleiknum og hvernig menn mæta inn í leikina. Við erum ekkert að fara að gefast upp, það er nóg af stigum eftir. Við erum að fara norður á sunnudaginn og svo eru þrír hörku leikir fyrir okkur í restina gegn Fylki, Leikni og Keflavík. Sama staðan er ennþá uppi þó að leikjunum fækki og við höfum trú á því að við höldum okkur uppi,“ sagði Jóhannes Karl að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira