Umfjöllun og viðtöl: KA - Breiða­blik 0-2 | Blikar á toppinn eftir sigur fyrir norðan

Ester Ósk Árnadóttir skrifar
Úr síðasta leik Breiðabliks og KA.
Úr síðasta leik Breiðabliks og KA. Vísir/Hulda Margrét

Breiðablik lyfti sér í efsta sæti Pepsi Max deildarinnar með sterkum 2-0 útisigri gegn KA þegar fjórar umferðir eru eftir. Norðanmenn eru hinsvegar nánast búnir að stimpla sig út úr toppbaráttunni.

KA menn komu vel stemmdir til leiks og byrjuðu leikinn mun betur og átti Breiðablik í stökustu vandræðum með að koma sér inn í leikinn. Það mátti litlu muna að KA kæmist yfir á 11. mínútu þegar Anton í marki Breiðabliks gerðist sekur um að hanga of lengi á boltanum. Ásgeir var nálægt því að stela boltanum af honum en Anton kvikur og stökk á boltann áður en illa fór.

Eftir góðar 20. mínútur heimamanna tóku gestirnir hægt og rólega yfir leikinn. KA átti þó sínar rispur í fyrri hálfleik en hraði Breiðabliks er eitthvað sem hangir yfir liðum, það virðist ekki skipta máli hvar þeir ná boltanum á vellinum að alltaf skapast hætta af samspili þeirra. Þrátt fyrir hraðann og skemmtilegan fyrri hálfleik var ekki mikið um opnanir. KA komst kannski næst því þegar Hallgrímur Mar átti sendingu inn á Ásgeir á 42. mínútu sem var í ákjósanlegri stöðu við nærstöng. Finnur Orri sem var frábær í leiknum gerði vel í að loka á Ásgeir í þeirri stöðu. Staðan því í hálfleik 0-0.

Jóhann Ingi dómari leiksins var varla búinn að flauta seinni hálfleik á þegar Kristinn Steindórsson kom gestunum yfir á upphafs andartökunum. Ívar Örn gerðist þá sekur um mistök í vörn KA manna. Breiðablik voru fljótir að nýta sér það, boltinn út á Höskuld sem átti fyrirgjöf sem fór af KA manni og síðan á kollinn á Kristni sem gerði vel í erfiðari stöðu. Staðan 1-0 fyrir Breiðablik.

KA menn virtust slegnir út af laginu og gestirnir gengu á lagið. Á 54. mínútu átti áðurnefndu Kristinn fyrirgjöf inn í teig þar sem Árni Vilhjálmsson var mættur og setti boltann í netið. Staðan því orðinn 2-0 og brekkan brött fyrir heimamenn.

Sú brekka varð líka of brött því að heimamenn sáu í raun aldrei til sólar það sem eftir lifði seinni hálfleiks. Þrátt fyrir að reyna var það máttlítið og leikmenn Breiðabliks spiluðu þægilegan seinni hálfleik. Lokatölur 2-0 og Breiðablik fer í toppsætið með 38 stig á meðan KA þarf að býta í það súra epli að vera úr leik í toppbaráttunni.

Afhverju vann Breiðablik?

Þeir voru betri á öllum vígstöðum þrátt fyrir að heimamenn hafi byrjað leikinn betur þá virtist ekkert fara um gestina. Þeir gengu bara hægt og rólega á lagið. Mark í upphafi seinni hálfleiks gerði svo eftirleikinn auðveldan. Það eru bara mikill gæði í Breiðablik og lið þurfa að vera á sínum besta degi til að sigra þá. KA var ekki á þeim degi í dag.

Hverjir stóðu upp úr?

Breiðablik í heild var frábært í dag. Finnur Orri var frábær í leiknum. Kristinn skorar gott og mikilvægt mark í upphafi seinni hálfleiks og átti svo stoðsendinguna í því seinna. KA réð illa við Gísla þegar hann komst á ferðina og Höskuldur var frábær. Þannig mætti í raun lengi telja.

Mark Gundelach sem nýlega kom til KA var manna sprækastur hjá heimamönnum.

Hvað gekk illa?

KA gekk afskaplega illa að skapa sér færi í leiknum. Uppspilið var fínt hjá þeim en það er sama sagan í báðum leikjunum á móti Breiðablik að þegar komið er á síðasta þriðjung er eins og eitthvað vanti. Þeir náðu að skapa sér færi í fyrri leiknum en nánast ekkert í seinni leiknum og skora í hvorugum.

Hvað gerist næst?

Breiðablik heimsækir Fylkir í Árbæinn á sunnudaginn, spennandi toppbarátta framundan hjá Blikum og nú má liðið lítið misstíga sig svo verkefnið er verðugt þar sem þeir eru komnir í bílstjórasætið í baráttunni um Íslandsmeistaratitillinn.

KA fær ÍA í heimsókn á Greifavöllinn.

Arnar Grétarsson: Ennþá séns að komast bakdyrameginn inn í Evrópukeppnina

Arnar Grétarsson, þjálfari KA, heldur enn í vonina um Evrópusæti.Vísir/Hulda Margrét

„Þetta eru fyrst og fremst vonbrigði. Mér fannst við spila frábæran fyrri hálfleik en það vantaði kannski upp á að nýta þær góðu stöður sem við komumst í. Mér fannst við vera mun betri en eins og ég sagði fyrir leik að við erum að spila á móti einu besta liðinu og að lenda undir á móti þeim er erfitt, sagði svekktur Arnar Grétarsson eftir 2-0 tap á móti Breiðablik á Greifavellinum í dag.

„Fyrsta markið var af ódýrari gerðinni. Seinni hálfleikur var varla byrjaður og við erum að spila boltanum út úr vörn og þar gerum við mistök og þeir refsa fyrir það. Þegar þeir skora svo seinna markið er leikurinn orðinn ansi erfiður en fyrst og fremst svekkelsi að fara með 2-0 tap. Mér fannst við ekki verðskulda það í dag. Breiðablik eru mjög góðir að koma sér í dauðafæri og það er eitthvað sem við þurfum að skerpa á í okkar leik.“

KA hefur mætt Breiðablik tvisvar á fjórum dögum og tapa einvíginu samanlagt 4-0.

„Við skorum ekki en í fyrri leiknum sköpum við nokkur mjög góð færi. Ég þarf kannski að sjá leikinn aftur en mér fannst fyrri hálfleikur mjög flottur hjá okkur, komust í mjög margar góðar stöður en það er rétt við þurfum að koma boltanum í markið ef við ætlum að vinna leiki. Þegar þú ert að spila á móti Breiðablik sem hefur skorað 40+ mörk að þá veistu að hlutirnir verða erfiðir. Þú þarft að skora og við náðum því ekki og þess vegna töpum við leiknum í dag.“

KA er í fimmta sæti deildarinnar með 30 stig og stimplaði sig svo gott út úr allri baráttu með tapinu í dag.

„Það er bara áfram gakk hjá okkur. Við verðum að taka það jákvæða út úr þessum leikjum, þú ert að spila á móti mjög góðu liði og í dag höfum vorum við ofan á í hvað varðar að spila fótboltahlutanum. Vorum mun sterkari í fyrri hálfleik en þegar þú lendir undir að þá er það erfitt á móti þeim. Þeir eru góðir í fótbolta og eru fljótir að koma sér í stöður þegar þeir sækja á en það er margt jákvætt. Við þurfum að skerpa á síðasta þriðjung.“

„Við eigum fjóra leiki eftir og erum með 30 stig, við viljum fá max út úr þessum fjórum leikjum vegna þess að það er ennþá fræðilegur möguleiki að kannski komast bakdyrameginn inn í Evrópu, meðan það er ætlum við að berjast fyrir því.“

Höskuldur Gunnlaugsson: Fögnum þessu í kvöld

Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Blika, var eðlilega sáttur með úrslit leiksins.Vísir

Fyrirliði Breiðabliks Höskuldur Gunnlaugsson var að vonum ánægður með sigurinn á KA á Greifavellinum „Tilfinningin er mjög góð. Þetta er klárlega einn af erfiðustu útivöllunum klárlega sem að maður fer á. Það að koma hingað og halda hreinu og ná þrem stigum er bara frábært.“

Það tók Breiðablik um tuttugu mínútur að koma sér almennilega inn í leikinn.

„Þetta er ólíkt undirlag en við erum vanir, ekki það að völlurinn var bara mjög fínn í dag en við ákváðum að fara mjög varkárir inn í þetta verkefni. Þreifa aðeins fyrir okkur á velllinum. Þeir koma bara með góðann kraft inn á völlinn og með sitt heimafólk í stúkunni. Mér fannst eftir því sem leið á leikinn að við tókum hægt og bítandi stjórn á leiknum.“

Breiðablik skoraði á upphafs mínútu seinni hálfleiksins.

„Það var frábært að fá markið í upphafi seinni hálfleik. Við vorum í kjörstöðu eftir að við skorum svo seinna markið stuttu seinna en þeir alltaf hættulegir. Þeir eru hættulegir í föstum leikatriðum, með stóra menn og frábæra spyrnumenn þannig að við vorum á tánum fram á síðustu mínútu.“

Spurður út í toppsætið sagði Höskuldur þetta.

„Mér líður frábærlega að vera kominn í toppsætið.“

Breiðablik mætir Fylkir á útivelli í næstu umferð.

„Það verður erfitt að mæta Fylki í næstu umferð. Þeir eru í sinni baráttu hinum meginn á töflunni þannig að þeir verða dýrvitlausir. Þetta verður erfiður leikur. Við fögnum þessi í kvöld en svo er bara næsti leikur.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira