Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Fylkir 1-0 | Hildigunnur þrumaði yfir Fylki

Sindri Sverrisson skrifar
Stjarnan er í ágætum málum um miðja Pepsi Max-deildina.
Stjarnan er í ágætum málum um miðja Pepsi Max-deildina. vísir/Hulda Margrét

Fylkir er áfram í fallsæti eftir 1-0 tap gegn Stjörnunni í Pepsi Max-deild kvenna í fótbolta í Garðabæ í kvöld, þegar liðin eiga aðeins þrjá leiki eftir á tímabilinu. Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir skoraði sigurmark leiksins.

Fylkir er með 12 stig í næstneðsta sæti og hefur nú leikið leik meira en Keflavík sem er með 12 stig í 8. sæti og Tindastóll sem er með 11 stig í neðsta sæti.

Sigur Stjörnunnar var fyllilega verðskuldaður en liðið hafði mikla yfirburði í seinni hálfleiknum og uppskar að lokum mark korteri fyrir leikslok.

Ef að Hildigunnur hefði ekki mundað þar skotfótinn, rétt utan teigs og þrumað boltanum í markið þá hefðu Fylkiskonur kannski getað krækt í stig. Það var hins vegar algjör einstefna að marki Fylkis í seinni hálfleik, eftir að Stjarnan hafði einnig verið betri í fyrri hálfleik, og gestirnir áttu engin svör á lokakaflanum til að hleypa spennu í leikinn.

Hildigunnur hefði vel getað verið komin með mark og stoðsendingu áður en hún skoraði. Hún lagði upp dauðafæri fyrir Betsy Hassett í fyrri hálfleik en nýsjálenski ólympíufarinn fór illa með það. Betsy tók svo mögulega mark af Hildigunni í seinni hálfleik þegar hún renndi sér í boltann við marklínuna, eftir skot Hildigunnar, og var dæmd rangstæð.

Stjörnukonur áttu fjölda fleiri skottilrauna í leiknum, fengu fullt af hornspyrnum og aukaspyrnum, en urðu að láta sér eitt mark nægja. Fylkiskonur fengu tvær álitlegar skyndisóknir í fyrri hálfleik en vantaði allan brodd í sóknarleik sinn og ljóst að ekki bætir úr skák fyrir liðið að Bryndís Arna Níelsdóttir spili ekki meira á tímabilinu.

Það er sömuleiðis ljóst að Katrín Ásbjörnsdóttir og Chante Sandiford spila ekki meira fyrir Stjörnuna á tímabilinu en það kom ekki að sök í kvöld.

Stjarnan er nú með 23 stig í 5. sæti, tveimur stigum á eftir Þrótti og Selfossi, og ekki hægt að útiloka að liðið endi tímabilið í verðlaunasæti.

Af hverju vann Stjarnan?

Stjörnukonur voru mikið betri aðilinn í leiknum og hefðu hæglega getað unnið stærri sigur. Þær lokuðu gjörsamlega á sóknaruppbyggingu Fylkis, sérstaklega í seinni hálfleik, og sköpuðu sér dauðafæri þó að á endanum hafi það verið langskot Hildigunnar sem gerði gæfumuninn.

Hverjar stóðu upp úr?

Hildigunnur verðskuldaði svo sannarlega markið sitt, var mjög ógnandi með hraða sinn og tækni, og sýndi svo kraftinn sem býr í skotfótnum. Gyða Kristín Gunnarsdóttir lék sérstaklega vel í seinni hálfleiknum og hjálpaði Hildigunni og Betsy vel að skapa hættu. Heiða Ragney batt liðið vel saman sem aftasti miðjumaður og skilaði boltanum vandlega frá sér. Sæunn Björnsdóttir var sterk í miðri vörn Fylkis.

Hvað gekk illa?

Þó að skot Hildigunnar hafi verið fast hefði Tinna Brá átt að gera betur í marki Fylkis. Fylkiskonum gekk skelfilega að skapa hættu fram á við og Stjörnukonur hefðu sömuleiðis mátt gera mun betur og áttu urmul skottilrauna utan teigs sem sköpuðu enga hættu. Þá kom of lítið út úr fjölmörgum hornspyrnum heimakvenna.

Hvað gerist næst?

Stjarnan fer næst til Vestmannaeyja og mætir ÍBV á mánudaginn. Stjarnan á svo eftir heimaleik við Breiðablik og útileik við Tindastól.

Fylkir tekur á móti Þrótti á mánudaginn og svo Þór/KA en endar á að fara til Vestmannaeyja í lokaumferðinni.

Hildigunnur: Verið mjög gaman miðað við hvernig gekk í fyrra

„Ég er mjög ánægð. Við stóðum okkur mjög vel og mér fannst við eiga skilið að vinna stærra,“ sagði Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir, markaskorari Stjörnunnar.

„Við vorum rólegar og það gekk eiginlega allt vel nema beint fyrir framan markið. Við vorum nálægt þessu oft og það er gott að þetta skyldi detta þarna,“ sagði Hildigunnur sem skoraði þegar korter var til leiksloka.

Hildigunnur hefur nú skorað sjö mörk í sumar og væri kannski komin með átta eins og fyrr segir. Skammaði hún Betsy fyrir að „stela“ marki og fá dæmda á sig rangstöðu í seinni hálfleiknum?

„Nei, nei. Hún var bara að reyna að tryggja þetta og ekkert hægt að skamma hana fyrir það,“ sagði Hildigunnur róleg.

Hún hefur átt frábært tímabil og er markahæst hjá Stjörnunni eftir að hafa þurft að þola það að skora ekki mark á síðustu leiktíð, en Hildigunnur er aðeins 18 ára.

„Þetta hefur gengið mjög vel. Þetta hefur verið mjög gaman miðað við hvernig gekk í fyrra. Þetta er betra í ár.“

Kjartan: Vorum slakar í dag

Kjartan Stefánsson, þjálfari Fylkis, var afar daufur í dálkinn eftir enn eitt tapið í sumar.

„Við vorum slakar í dag. Þetta var ágætis fyrri hálfleikur og við ætluðum náttúrulega að koma inn í seinni hálfleik og gera betur en fengum bara slakan seinni hálfleik,“ sagði Kjartan og átti fá svör við því af hverju sóknarleikur Fylkis hefði gengið svona illa.

„Ég hreinlega veit það ekki. Við hittum markið ekki. Það var allt of mikið púður sett í að ætla að skjóta markmanninn inn í markið. Þetta var allt marga metra yfir.

Við þurfum bara að taka næsta leik og einbeita okkur að honum, og reyna að ná inn þeim vilja sem var í síðasta leik og kannski í fyrri hálfleik í kvöld. Við erum í brasi og þurfum að bíta í skjaldarrendur,“ sagði Kjartan.

Það var rétt í uppbótartíma sem að Fylkir náði að skapa smáhættu en það dugði ekki til.

„Það var bara allt of seint. Því miður er þetta stundum svona. Mér fannst þetta heilt yfir frekar bragðlaust og 0-0 hefði kannski getað verið sanngjarnt.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira