Erlent

Minnst 22 látnir eftir flóð í Tennes­see

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Hús sem skemmdist í flóðunum. Það stendur skammt frá læk nokkrum sem breyttist í stórfljót í rigningunum.
Hús sem skemmdist í flóðunum. Það stendur skammt frá læk nokkrum sem breyttist í stórfljót í rigningunum. ap/Mark Humphrey

Minnst 22 hafa látist í flóðum eftir for­dæma­lausar rigningar í Hump­hrey-sýslu í miðju Tennes­see-fylki í Banda­ríkjunum. Margra er enn saknað en flóðin fóru víða yfir vegi og felldu síma- og fjar­skipta­möstur í gær. Í mörgum til­fellum hefur fólk því ekki náð sam­bandi við ást­vini sína til að at­huga hvort sé í lagi með þá.

Lög­regla á svæðinu segir að flestir þeirra sem enn er saknað hafi búið á svæðum þar sem vatn í ám óx hve hraðast í rigningunum.

Hrifsaði ungabörn úr fangi föður síns

Á meðal þeirra látnu eru tvö unga­börn, tví­burar sem flóðið hrifsaði úr fangi föður þeirra, að því er segir í frétt AP.

Trukkur og bíll sem enduðu í lækjarfarvegi í flóðunum.ap/Mark Humphrey

Flóðin skildu eftir sig gríðar­mikið rusl og brak eftir ónýt hús og bíla víða um sveitir og bæi. Björgunar­sveitir ganga nú hús úr húsi til að at­huga með fólk og reyna að finna þá sem enn er saknað.

Aldrei mælst meiri rigning í fylkinu

Um 43 sentí­metra rigning mældist í sýslunni síðasta sólar­hring, sem er það mesta sem mælst hefur í Tennes­see frá upp­hafi mælinga, átta sentí­metrum meira en þann sólar­hring sem áður var rigninga­mestur. Sá dagur var fyrir 39 árum síðan.

Úr­hellið gerði það fljót­lega að verkum að lækir, sem renna víða við hús og í gegn um ein­hverja bæi í sýslunni, breyttust í straum­hörð fljót.

Vegur fór í sundur við borgina McEwen í Tennessee.ap/Mark Humphrey

Veður­fræðingar sáu svo mikla rigningu ekki fyrir en flóða­við­vörun hafði verið send út þar sem varað var við 10 til 15 sentí­metra rigningu. Í versta stormi sem hafði áður mælst á ein­mitt þessu svæði í miðju Tennes­see-fylki hafði ekki mælst nema 23 sentí­metra rigning. Rigningin í gær var næstum tvisvar sinnum meiri.

Veður­fræðingur á svæðinu sem frétta­stofa AP ræddi við segir ó­mögu­legt að komast að því hver þáttur lofts­lags­breytinga af manna­völdum er í svo ofsa­fengnum stormi. Þetta sé þó í þriðja skiptið á einu ári þar sem stór­flóð verður í fylkinu sem hún segir að eðli­legt væri að gera ráð fyrir á um hundrað ára fresti.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×